Sérstakur kafli var skrifaður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátt Ólafs Ragnars Grímssonar í bankahruninu. Þar kom fram að forsetinn hefði gengið hart fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki. Lærdómurinn var sagður þríþættur.
1. Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
2. Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
3. Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning
Ólafur Ragnar hefur aldrei viljað samþykkja þessar tillögur og beinlínis beitt sér gegn þeim. Það er í sjálfu sér alvarlegt mál, en að sama skapi nokkuð undarlegt. Hvers vegna ætti forsetinn ekki að vilja skerpa á hlutverki sínu? Og hvers vegna í veröldinni hafnar hann siðareglum?
Hér verður ljósinu beint að siðareglunum og við byrjum á forsætisráðherranum fyrrverandi. Máli hans svipar nefnilega til máls Ólafs Ragnars.
Sigmundur Davíð og siðareglurnar
Þegar Sigmundur Davíð tók sæti á Alþingi árið 2009 var hann skráður fyrir helmingshlut í aflandsfélaginu Wintris. Hann hafði mikið fyrir því að viðhalda leyndinni yfir félaginu og í einhverjum tilfellum virðast ákvarðanir hans hafa ráðist af þessum feluleik.
Þann 31. desember árið 2009 seldi hann verðandi eiginkonu sinni hlut sinn í Wintris á einn dollara. Daginn eftir tóku gildi lög sem hefðu skikkað hann til að gera grein fyrir eigninni á skattframtali sínu.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti sér siðareglur árið 2011, þar sem meðal annars kom fram að ráðherra skyldi „forðast hagsmunaárekstra og gæta þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín“. Þessar reglur voru aldrei formlega staðfestar af Sigmundi Davíð og höfðu því ekkert stjórnsýslulegt gildi í forsætisráðherratíð hans að mati umboðsmanns Alþingis.
Siðaregluhringlið sem á eftir fylgdi var með ólíkindum. Forsætisráðherra svaraði til að mynda umboðsmanni Alþingis með lagatæknilegu moði og skætingi þegar hann var spurður um málið. Því næst beitti Sigmundur Davíð sér fyrir því að nefnd, sem stofnuð hafði verið um siðferðislega breytni stjórnvalda, var færð undir forsætisráðuneytið. Staðan í lok árs 2014 var því þannig að forsætisráðuneytið (hann sjálfur) átti að veita stjórnvöldum (honum sjálfum) leiðbeiningar um hvernig koma ætti í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingarmál.
Sigmundur Davíð varð loks að játa sig sigraðan þegar almennar siðareglur fyrir alþingismenn voru samþykktar þann 16. mars 2016, en þar var kveðið á um að þingmenn skyldu upplýsa um hagsmuni fjölskyldu sinnar ef þeir rækjust á almannahagsmuni. Nítján klukkutímum áður en lögin tóku gildi upplýsti eiginkona hans um Wintris-félagið og hvatti fólk til þess að gefa Gróu á Leiti smá frí.
Ólafur Ragnar og siðareglurnar
Forsetinn benti á heimasíðu embættisins þegar hann var í fyrsta sinn spurður um siðareglurnar. Hann sagði ekkert embætti á Íslandi eins opið og gagnsætt og forsetaembættið væri orðið. Á heimasíðunni væri að finna frásagnir af öllum fundum forsetans og ræður hans. Þannig hefði hann bætt siðahætti embættisins.
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, tók ekki undir þá túlkun Ólafs Ragnars að heimasíða embættisins væri ígildi siðareglna og um mitt ár 2010 sendi hún honum erindi þar sem óskað var eftir viðhorfi hans til þess hvernig setja ætti embættinu siðareglur.
Óhætt er að segja að forsetinn hafi ekki tekið erindinu vel. Hann boðaði Jóhönnu á fund til sín og bauð henni að „draga bréfið til baka“, en Jóhanna vildi ekki gera það. Því næst sendi forsetaritarinn henni bréf þar sem allt sem á undan var gengið var afskrifað sem „margþættur misskilningur“ af hálfu forsætisráðherra, en Jóhanna vildi heldur ekki gangast við því.
Þegar hér er komið sögu ákveður Ólafur Ragnar að snúa vörn í sókn og svarar forsætisráðherra fullum hálsi. Í bréfi sínu vænir hann Jóhönnu meðal annars um valdníðslu og „rakalausa tilraun til íhlutunar“, því hann væri nú þegar í samstarfi við nefnd á vegum Alþingis vegna skýrslunnar. Þessu svarar Jóhanna og segist ánægð með að málið sé komið í farveg.
Vefmiðillinn Eyjan greinir síðan frá því í upphafi árs 2011 að setning siðareglna hafi runnið út í sandinn. Fékk Eyjan þau svör frá embætti forseta Íslands að sérfræðinga greindi á um eðli og gildi slíkra reglna og þar var vísað til erlendra fordæma.
Ólafur Ragnar hélt því síðan fram, fyrir forsetakosningarnar 2012, að ekki þyrfti að setja embættinu siðareglur vegna þess að 9. grein stjórnarskrárinnar þjóni sambærilegu hlutverki. Aðalatriði í siðareglum ráðherra og þingmanna væri að banna fjárhagsleg tengsl og „því felur stjórnarskráin í sér þær siðareglur fyrir forseta sem mestu skipta“.
Stjórnarskrárgreinin umrædda er svohljóðandi: „Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.“ – Svo mörg voru þau orð.
Ég vildi að ég ætti eignir
Á heimasíðu forsetaembættisins má finna upplýsingar um eiginkonu forsetans, Dorrit Moussaieff. Þar segir að Dorrit hafi um árabil fengist við skartgripaviðskipti með áherslu á sjaldgæfa steina og einnig stundað ýmis önnur viðskipti. Breski fjölmiðillinn Daily Mail bætir því við að hún komi af auðugu fólki og að fjölskyldufyrirtækið sé metið á 27,4 milljarða króna.
Þrátt fyrir hin miklu (ætluðu) auðæfi eiginkonunnar, borguðu forsetahjónin aldrei auðlegðarskatt á Íslandi. Það kemur fram í tekjublöðum undanfarinna ára.
Þegar Viðskiptablaðið ljáði máls á þessu, fyrstur miðla, gaf forsetaembættið út eftirfarandi yfirlýsingu: „Allar tekjur og eignir Dorritar eru erlendis og eru, eins og ber að gera, skattlagðar þar.“ Fjórum mánuðum síðar (27. desember 2012) flutti hún lögheimili sitt til Bretlands. Frá því var ekki greint opinberlega og fyrstu fréttir af málinu birtust ekki fyrr en um hálfu ári síðar.
Við það tilefni sagði Dorrit að flutningurinn tengdist því að Ólafur Ragnar væri að hætta sem forseti og hún ætlaði sér að sinna fyrri störfum í fjölskyldufyrirtækinu. Fram kom í yfirlýsingu hennar að með þessu væri hún að fylgja ráði lögfræðinga, sem grundvallað væri á íslenskum skattalögum.
Seinna sama dag sagði hún að bresk skattalög hefðu knúið hana til að flytja lögheimili sitt: „Það eru lög í Bretlandi sem segja að sá sem dvelur yfir 90 daga í landi sé búsettur þar samkvæmt lögum og þar sem fyrirtækið mitt er í Bretlandi get ég ekki brotið þarlend lög. Ég held líka lögin á Íslandi séu þannig, þó ég sé ekki viss, að til að vera með skráða búsetu hér þurfi maður að vera á landinu í minnsta kosti sex mánuði á ári. Ég er ekki lögmaður en þetta var mér sagt. Og þar sem ég get ekki verið hér í sex mánuði á ári, ég vildi að ég gæti það, ef árið væri átján mánuðir gæti þetta gengið.“
Því næst var hún spurð hvers vegna hún hefði ekki greitt auðlegðarskatt. „Því miður eru allar þær eignir sem ég á svo mikið veðsettar. Ég vildi að ég ætti eignir,“ en við það greip Ólafur Ragnar fram í fyrir henni og byrjar að tala um að þau hafi alltaf látið endurskoðendur og lögfræðinga sjá um þessi mál.
Skattasérfræðingar Rúv gáfu lítið fyrir þau rök að Dorrit hefði tilneydd þurft að flytja lögheimilið til að tryggja rekstur fjölskyldufyrirtækisins. Meginreglan væri sú að búseta réði skattskyldunni. Samkvæmt tvísköttunarsamningi við Bretland væru nokkrir þættir sem réðu þeirri úrlausn.
1. Fast heimili.
2. Miðstöð persónulegra hagsmuna.
3. Dvalartími.
Á þessum tíma var Dorrit með fast heimili á Bessastöðum og í London (lögheimilið skráð á Íslandi út árið 2012). Persónulegir hagsmunir hennar á Íslandi snúa að eiginmanninum og þjóðinni – gleymum því ekki að hún er forsetafrú og kemur fram fyrir hönd þjóðar. Á Bretlandi tengjast hagsmunirnir hins vegar foreldrum og fjármunum. Viðmið íslenskra skattalaga er 183-daga dvalartími (sex mánuðir) og sá sem dvelur hér lengur verður við það skattskyldur aðili.
Þegar Dorrit rökstuddi lögheimilisflutning sinn, með tilvísun í íslensk skattalög, var það vísbending um að hún hefði mögulega átt að greiða auðlegðarskattinn. Hvers vegna var hún annars að minnast á skattinn ef hann var málinu ótengdur?
Einnig er vert að skoða 183-daga regluna aðeins betur. Dorrit segir sjálf að hún „geti ekki“ verið á landinu í meira en sex mánuði á ári. Hér má spyrja: Hvað veldur því að dvalartími hennar á Íslandi er alltaf styttri en sex mánaða viðmið skattsins?
Loks ber að skoða fullyrðingar hennar um að hún sé eignalítil. Ef þær reynast réttar, þá þarf ekkert að ræða þetta frekar; auðlegðarskatturinn var einungis lagður á nettó eignir. Og ef forsetafrúin treystir sér til að halda því fram fyrir alþjóð, ætti henni að reynast það leikur einn að útvega gögn sem styðja við fullyrðinguna. Og þar með væri málið úr sögunni.
Nýjar upplýsingar um aflandsfélög Dorritar
Á mánudaginn var fluttu fjölmiðlar fréttir af því að Dorrit hafi tengst að minnsta kosti fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og tveimur aflandsfélögum, þvert á fyrri yfirlýsingar forsetans um málið.
Það kom síðan fram í umfjöllun The Guardian að forsetafrúin bæri aðeins takmarkaða skattskyldu í Bretlandi. Ekki fengust svör við því, hvar hún hefði skattalega heimilisfesti, þegar RÚV spurði um málið og forsetaembættið gaf ekki kost á viðtali um málið.
Í svari Örnólfs Thorssonar forsetaritara, við fyrirspurn Vísis, kom fram að Ólafur Ragnar hafi aldrei vitað neitt um málið. Lögfræðingar eiginkonu hans taka í sama streng og segja að fjárhagur þeirra hjóna hafi ávallt verið aðskilinn, forsetinn hafi því aldrei vitað neitt um hennar hagi. Þeir vildi ekki svara spurningum um hvort hún væri enn tengd aflandsfélögunum og sögðu að viðskipti hennar hefðu alltaf verið í samræmi við lög og að þau væru einkamál.
Hér má gera margar athugasemdir. Til dæmis hefur forsetaembættið gefið út yfirlýsingar um að allt sé með felldu varðandi fjármál eiginkonu forsetans, samanber þá sem kom í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins árið 2012 um Dorrit og auðlegðarskattinn. Það er á skjön við yfirlýsingar hans nú um að hann viti ekkert um málið.
Skattamál forsetahjónanna voru á könnu sama manns, Garðars Valdimarssonar, fyrrverandi skattstjóra og skattrannsóknarstjóra, eins og kom fram í frétt RÚV árið 2013. Vitneskjan um þessi mál var því til og hæpið að halda því fram að svo stóru máli hafi verið haldið frá forsetanum.
Svo er það heldur ekki rétt hjá lögfræðingum Dorritar að fjármál hennar séu einkamál. Hún þarf að standa skil á þeim gagnvart skattinum og ganga verður úr skugga um að svo hafi verið gert; ein lög verða að ganga yfir alla.
Eftir alla fjölmiðlaumfjöllunina árið 2012, varðandi skattamál Dorritar, hefði Ólafur Ragnar að sjálfsögðu átt að vera með þessi mál á hreinu. Það er því erfitt að trúa honum, þegar hann segist ekkert vita um málið.
Siðferðilegur vandi forsetans
Eignir til auðlegðarskatts bar að telja fram á skattframtali í mars 2010. Forsetafrúin átti samkvæmt fréttum eignir á aflandseyjum og það er mögulegt að hún hafi tekið vafasamar ákvarðanir gagnvart íslenskum skattayfirvöldum. Mánuði síðar fær Ólafur Ragnar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis inn á borð til sín og þar er hann krafinn um siðareglur sem beinlínis banna alla starfsemi á gráa svæðinu. Það gæti útskýrt óvenjulega hegðun hans og afstöðu gagnvart siðareglunum.
Mál Ólafs Ragnars og Sigmundar Davíðs eru ekki ósvipuð. Þeir eru giftir auðugum konum með eignir á aflandseyjum og flækjast inn í skattamál þeirra. Skattalegir gjörningar eru gerðir í skjóli leyndar, korteri áður en fresturinn rennur út, og siðareglurnar forðast þeir báðir eins og heitan eldinn.
Við vitum hvers vegna Sigmundur Davíð vildi ekki samþykkja siðareglurnar – eða höfum að minnsta kosti mjög sterkan grun um hvers vegna það var. En hvers vegna vill Ólafur Ragnar ekki setja embætti sínu siðareglur? Tengist það skattamálum þeirra hjóna og aflandsfélögum Dorritar?
Um þessi mál verður ekkert fullyrt með vissu, nema forsetafrúin upplýsi á afgerandi hátt um fjármál sín á tíma auðlegðarskattsins. Þangað til verða þau hjón að búa við vangaveltur sem þessar.
Athugasemdir