Flestir sem flytja til Berlínar eiga tímabil þar sem þeir týna sér í grúski um myrka fortíð borgarinnar og þannig rakst ég eitt kvöldið á Youtube-myndband með ræðu Adolfs Hitler sem hann hélt fyrir verkamenn í Siemens-verksmiðjunum um það leyti sem hann náði völdum í Þýskalandi. Hitler vissi að salurinn bæri blendnar tilfinningar til nasista og brá því á það ráð að finna sökudólga sem menn gátu sameinast um:
„Þetta er fólkið sem á hvergi heima og samt alls staðar, sem á hvergi jarðskika þar sem það hefur vaxið úr grasi, það býr í Berlín í dag, Brussel á morgun, París hinn daginn, og síðan aftur í Prag eða Vín eða London, og því finnst það alls staðar eiga heima. Þetta er eina fólkið sem má með sanni kalla alþjóðlegt, af því að það á sín viðskipti hvar sem er, en þeir sem heima sitja geta aldrei fylgst með, enda bundnir átthögum …“
Um hvaða hóp var Hitler að tala? Sagnfræðingar voru flestir sammála um að hann ætti við gyðinga og einn áhorfenda hrópaði „júði“ því til staðfestingar. En lýsingin átti líka einkar vel við mig sjálfan. Ég var rótlaus, staddur í Berlín þann daginn, en í Tórshavn, Mílanó eða Nuuk viku seinna. Ég var alls staðar heima hjá mér því ég get unnið hvar sem er, meðal annars vegna þess að ég er stundum á ritlaunum. Hvað ætli Hitler segði við því? Hvernig myndi ég réttlæta fyrir honum starfslaun listamanna?
Ég myndi reyna að réttlæta launin þangað til að ég yrði grænn og gulur í framan. Ég myndi segja frá því að þau séu kúkur og kanill miðað við 600 milljóna virðisaukaskatt af bókaútgáfu sem skilar sér beint í íslenska ríkiskassann. Ég gæti talað um landkynningu og margvíslega atvinnusköpun og að ég sé núna að skrifa bók á tímakaupi sem gróft reiknað gefur um hundrað íslenskar krónur á klukkustund miðað við þann tíma sem ég hef sett í handritið.
Á þessu stigi myndi Hitler sennilega dæsa og bjóða mér metamfetamín – og ég myndi allur færast í aukana, útskýra að sjálf umsóknin um starfslaun væri ekki síður mikilvæg. Í því ferli neyddist ég til að horfast í augu við það sem ég væri að gera. Ákveða um hvað bókin væri sem kæmi út á næsta ári, eða bókin þar á eftir.
En það yrði erfitt að sannfæra Hitler. Í fyrsta lagi er hann löngu dauður, búinn að taka handfylli af róandi og skjóta af sér hálft andlitið þannig að ég myndi sjá mér þann kost vænstan að snúa mér að höfuðóvini númer tvö: íslenska plebbanum. En hvar ætti ég þá að byrja? Kannski í fermingarveislu að ræða málin yfir storknaðri brauðtertu? Íbygginn sessunautur myndi vitna í þriðja aðila sem væri „mjög mikið á móti listamannalaunum“.
En hvernig er hægt að verja þessi laun fyrir fólki sem er fyrst og fremst að leita að sökudólgum fyrir fánýti og leiðindi eigin tilveru? Ég er jú á vissan hátt að ræna það þeim litlu lífsgæðum sem það hefur aðgang að. Í hvert sinn sem það borgar komugjald hjá lækni þá bölvar það ekki ríkisstjórninni heldur Þórarni helvítis Leifssyni og listamannalaununum.
Þessi umræða er líka að einhverju leyti birtingarmynd á eilífu haturs- og ástarsambandi þjóðarinnar við listamenn sína. Við montum okkur af Laxness og Ólafi Elíassyni á tyllidögum en innst inni vildum við helst taka Björk eða söngvarann í Sigur Rós og velta þeim upp úr tjöru og fiðri og senda þau til Síberíu. Ég andvarpa þungt og sný mér aftur að Hitler. Segi honum skemmtisögu af okkur hjónum.
Kæri Adolf, byrja ég. Stundum er ég bílstjóri fyrir konu mína í upplestrarferðum, hún er nefnilega rithöfundur eins og ég. Ég stend á hliðarlínunni boldangslegur í fasi, líkt og lífvörður, meðan hún les. Fyrir hvern lestur er greiddur lágmarkstaxti samkvæmt verðskrá Rithöfundasambands Íslands en svo er líka lesið frítt í góðgerðarskyni við þá sem minna mega sín.
Þessum törnum fylgir töluvert umstang og þegar líður á fer rótarinn stundum að ókyrrast yfir drykkfelldum saumaklúbbum úti í bæ sem hringja til að nuða út fría lestra. Pressan getur orðið veruleg og stundum bregður konan mín á það ráð að taka að sér einn og einn lestur án þess að trufla lífvörðinn ógurlega.
Og þannig bar það við eina vertíðina að drengur einn hringdi í hana og kynnti sig sem barnabarn gamals manns sem hún hafði séð um á öldrunarheimili á Flateyri á yngri árum og þótt vænt um. Hann falaðist eftir ókeypis lestri fyrir vinahóp sem starfaði saman í pólitík og ætlaði að gera sér dagamun í aðventunni. Ungt fólk úr ýmsum byggðum landsins, staðráðið í að tortíma sjálfu sér með því að styðja flokk sem bakkar upp menn sem selja kvótann úr þessum sömu byggðum. Við getum kallað þau sjálfseyðandi pilsfaldakapítalista.
Konan mín mundi eftir ljúflingi að vestan, rétt eins og henni hafði þótt vænt um afann, og þess vegna féllst hún á að að lesa frítt fyrir partíið, seint um kvöld eftir fimm aðra lestra. Hún las fyrir ungviðið meðan það gæddi sér á pitsu yfir kertaljósi. Að lestri loknum brast á vandræðaleg þögn svo hún spurði fregna af öðrum pilti frá Flateyri sem hún kannaðist við frá gamalli tíð.
Nú, hann er fyrir vestan að reka frystihús svo að þið rithöfundarnir getið hangið í útlöndum, gall þá í sjálfsöruggri stúlku og það tísti í borðnautum sem flissuðu með vinkonu sinni eins og hún hefði þorað að segja það sem flestir höfðu verið að hugsa.
Ekki þarf að fjölyrða um að vinnustaðurinn fyrir vestan er búinn að fara margoft á hausinn með ærnum tilkostnaði fyrir samfélagið meðan bækur eiginkonunnar hafa skilað milljónum í ríkiskassann í formi beinna og óbeinna skatta.
En nú er Hitler loksins nóg boðið. Sjeise! hvæsir hann. Ætlarðu að verja þessi betlilaun út í rauðan dauðann?
Já, Adolf! Ég vil skilja eitthvað eftir mig! Bækurnar mínar eru mitt þúsund ára ríki og þær munu lifa Mein Kampf.
Athugasemdir