Í gær fór fram sérstök umræða á Alþingi um listamannalaun að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns. Sakaði hann listamenn um siðleysi, klíkuskap og ógagnsæi og kallaði eftir því að þingmenn tækju sjálfir að sér úthlutun listamannalauna. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafnaði eindregið hugmyndum Ásmundar og kom listamannalaunum til varnar. Skiptar skoðanir eru um listamannalaun innan Sjálfstæðisflokksins, en bæði kjörnir fulltrúar og grasrót flokksins hafa látið sig þau varða undanfarna daga.
„Það efast enginn sem þekkir mig um áhuga minn á menningu og hvers konar listum. Ég er sjálfur virkur þátttakandi sem áhugamyndlistamaður og hef staðið fyrir stórum sem smáum lista- og menningarviðburðum áratugum saman og ber þá hæst listahátíðin Ferskir vindar í Garði,“ sagði Ásmundur í upphafi ræðu sinnar um málið. Þá tók hann fram að það væri einmitt vegna menningaráhugans sem hann hefði áhyggjur af því hvernig úthlutun listamannalauna væri háttað:
„Það er eðlilegt að þjóðin ræði hvernig staðið er að úthlutun listamannalauna. Er það til dæmis eðlilegt að stjórn Rithöfundasambandsins velji úthlutunarnefndina og síðan úthlutar sú stjórn allri sitjandi stjórn rithöfundasambandsins listamannalaunum til tólf mánaða og þannig hefur það verið jafnvel árum saman?“ sagði Ásmundur og vísaði svo til eins tiltekins listamanns, rithöfundarins Andra Snæs Magnasonar: „Dæmi hafa verið nefnd um í umræðunni um rithöfund sem hefur þegið listamannalaun í níu ár en skilað litlu meira en einum bókartitli á þeim tíma.“
Athugasemdir