Ef þú skoðar ráðstöfunartekjur á Íslandi eftir menntun þá er munurinn mjög lítill. Það er gríðarlega mikill jöfnuður hérlendis hvað varðar raunverulegt eyðslufé fólks. Allt opinbera kerfið – bæði skattar og bætur – miðar að jöfnun. Þannig að ef þú ert ungur sérfræðingur, það er að segja einstaklingur með háskólamenntun, þá er ákaflega erfitt fyrir þig að fá hærri ráðstöfunartekjur í vasann þrátt fyrir að þú hafir lagt á þig menntun til að hækka launin þín úr kannski frá því að vera 400 þúsund og upp í 700 þúsund. Hugtakið fátæktargildra er vel þekkt innan hagfræðinnar – hvernig samspil bóta og skatta veldur því að fólk getur ekki aukið ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að hækka í launum. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en svo að Íslenska millistéttin sé nú föst í svona gildru. Þess vegna get ég alveg skilið að ungt, menntað fólk – hin upprennandi millistétt – flytji úr landi því fólk með sérfræðiþekkingu ber miklu meira úr býtum í öðrum löndum en á Íslandi. Af þessum sökum gætu heilu sérfræðistéttirnar horfið úr landi á næstu árum.
Á uppgangsárunum fyrir hrun var mikil eftirspurn eftir menntuðu fólki, meðal annars í fjármálakerfinu, en ekki bara þar því atvinnulífið í heild sinni var að alþjóðavæðast og þurfti að fjárfesta í nýrri þekkingu. Mörg af þessum störfum hurfu náttúrulega í hruninu og kunnu að hafa verið óraunhæf. Verra er þó að síðustu ár hafa fleiri sérfræðistörf verið að tínast burt vegna fjármagnshaftanna. Höftin hafa sett vegg á milli Íslands og umheimsins og þau fyrirtæki sem geta kallast alþjóðleg eru að flýja landið. Þau kunna að halda áfram framleiðslustarfsemi hérlendis en höfuðstöðvar og búseta stjórnenda verða erlendis í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Þannig mun stór hluti af þeim störfum sem skapast í íslensku atvinnulífi verða stunduð erlendis í framtíðinni þar sem fullt viðskiptafrelsi er til staðar. Þetta er ekkert flókið: ekkert alþjóðafyrirtæki getur verið háð undanþágum og gjaldeyriseftirliti Seðlabankans eins og verið hefur síðustu 7 ár.
„Höftin hafa sett vegg á milli Íslands og umheimsins og þau fyrirtæki sem geta kallast alþjóðleg eru að flýja landið.“
Á sama tíma er helsti vaxtarbroddurinn á Íslandi ferðaþjónustan sem er mannaflafrek þjónustugrein með takmarkaða þörf fyrir menntað fólk. Þannig að við erum að fara að sjá það gerast á Íslandi að einhverju leyti, svipað og gerðist í Austur-Evrópu þegar hún opnaðist eftir Kalda stríðið og margar verksmiðjur frá erlendum fyrirtækjum opnuðu þar, að það verður eftirspurn eftir ófaglærðu vinnuafli en lítil eftirspurn eftir faglærðu starfsfólki sem sá sína sæng upp reidda og flutti úr landi. Hagvöxtur í Skandinavíu, til dæmis í Svíþjóð, hefur verið leiddur áfram af meðalstórum alþjóðafyrirtækjum sem sérhæfa sig á einhverju þröngu sviði, til dæmis í mjaltavélum eða kúlulegum eða einhverju slíku sem þau selja um allan heim. Það eru sérhæfð markaðssyllu-fyrirtæki sem bera uppi hagvöxtinn á Norðurlöndin og skapa virðismikil störf. Slík fyrirtæki geta ekki verið með höfuðstöðvar á Íslandi og gangast undir þær stórkostlegu kvaðir sem fylgja fjármagnshöftunum og því þrönga fjármálaumhverfi sem þau skapa hérlendis. Þannig er hætta á því að fjármagnshöftin leiði til þess að flottu sérfræðistörfin, störf fyrir tölvuforritara, tölvunarfræðinga, verkfræðinga og annað fólk sem hefur lagt á sig háskólanám, fari til annarra landa. Í stað þessa fólks sem fer mun síðan koma ómenntað erlent vinnuafl til þess að standa undir rekstri ferðaþjónustunnar.
Byggðavandi Íslands er ekki lengur sá að Súðvíkingar séu að flytja til Reykjavíkur heldur snýst hann um að halda fólkinu á Íslandi, sama hvar á landinu fólk kýs að búa. Ég hef miklar áhyggjur af því að höfuðborgarsvæðið sé í svipuðum sporum og landsbyggðin fyrir 20 til 30 árum þegar byggðaflóttinn hófst. Ég er fæddur árið 1970 og er alinn upp úti á landi. Mín kynslóð tók sig upp og flutti í bæinn að langmestu leyti í kringum 1990. Einhvern veginn drógum við þá ályktun að tækifærin væru ekki lengur að finna í heimabyggðinni. Einhverjir staðir úti á landi – ég gæti nefnt Akureyri og jafnvel Vestmannaeyjar– hafa náð að rétta hlut sinn á síðari árum. Staðan er samt sú að ef litið er á aldursdreifinguna úti á landi vantar fólk á bilinu 25-50 ára og byggðin er að miklu leyti borin uppi af fólki á aldrinum 55+. Hingað til hefur fólk viljað búa hérna vegna þess að það vill vera hér – og hefur jafnvel hafnað góðum atvinnutækifærum ytra. Það er hins vegar ekkert víst að unga kynslóðin sé áfram í þeim móral. Mér kæmi það ekki á óvart að tengslin við moldina séu orðin veikari en útþráin sterkari. Ég verð líka mjög var við það í kennslunni hér í Háskóla Íslands að þau eru orðin dauðþreytt á neikvæðni og baksýnispeglum. Það eru komin 7 ár frá hruni – sem í þeirra huga er óratími - en samt virðast allir vera að rífast yfir fortíðinni en engin ræðir um framtíðina sem þau hafa allan hugann við.
„Mér kæmi það ekki á óvart að tengslin við moldina séu orðin veikari en útþráin sterkari.“
Það sem þarf að gera eru nokkrir hlutir. Ég held að íslenska krónan sé okkar helsti óvinur og hafi verið frá fullveldi 1918. Það er ekki hægt að byggja upp alþjóðlegt atvinnulíf með krónuna. Í öðru lagi þarf að reka ríkisvaldið betur. Opinbera kerfið á Íslandi er mjög illa rekið samkvæmt öllum mælikvörðum. Það er ranglega útdeilt innan þess; Kári Stefánsson kom nú inn á það þegar hann sagðist handviss um að 90 prósent af þjóðinni vildi frekar setja pening í heilbrigðiskerfið en að bora í gegnum Vaðlaheiðina; það eru sjö háskólar á Íslandi - af hverju?; framhaldsskólakerfið er þannig að fólk útskrifast ekki fyrr en eftir dúk og disk - 40 prósent framhaldsskólanema eru eldri en tvítugir og útskrifast seint eða aldrei. Eftir hrunið fór fram flatur niðurskurður á opinbera kerfinu en ekki hagræðing. Þannig að við erum að nýta peningana miklu verr en gert er til dæmis í Skandinavíu. Það þarf ekki að spara peninga í þeim skilningi að skerða þurfi opinbera þjónustu heldur hagræða þannig að við nýtum peningana betur og getum fengið meiri þjónustu fyrir þá en við fáum núna – jafnvel þó það geti falið í sér fækkun ríkisstarfsmanna. Í þriðja lagi þarf að efla Reykjavík og hætta að líta á höfuðborgina sem vandamál í byggðapólitíkinni. Alla tuttugustu öldina var amast við vexti Reykjavíkur – en það þarf engum blöðum um það að fletta að öflugt höfuðborgarsvæði er ein helsta forvörnin fyrir landflótta ungs fólks. Svo má bæta því við að Ísland er ekki að nýta auðlindir sínar nægjanlega vel og fá nægilega mikinn arð af þeim. Til að mynda er 75 prósent af raforkuframleiðslunni selt til þriggja stóriðjufyrirtækja með litlum sem engum ábata en töluverðri áhættu fyrir íslenska skattborgara. En íslenska krónan og höftin eru stærsta vandamálið; íslenskt atvinnulíf mun ekki verða samkeppnishæft við nágrannalöndin svo lengi sem höftin eru við lýði.
Pistill Ásgeirs Jónssonar er innlegg í umfjöllun um flóttann frá Íslandi sem birtist í septemberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir