Tyrkland er í sviðsljósinu nú og þarf ekki að orðlengja um ástæður þess. Það hefur svo sem lengi mátt búast við að Tyrkir færu að gera sig gildandi á alþjóðavettvangi, þetta er mjög fjölmennt og að ýmsu leyti öflugt ríki þótt það hafi ekki náð vopnum sínum, eins og það heitir, fyrr en þá núna alveg upp á síðkastið þegar mikilvægi Tyrklands vex sífellt. Í þessari grein ætla ég engu að spá um hvernig Tyrkir muni spila úr sínum kortum undir stjórn hins einræðissinnaða Erdogans heldur beina athyglinni að sögu ríkisins, og byrja þá um það bil sem svæðið sem nú heitir Tyrkland var enn kallað Anatólía og hafði öldum saman verið hluti af Býsansríkinu, sem svo er nefnt, en það var gamla austurrómverska ríkið sem skrimti öldum saman eftir að Rómaveldi í vestri var endanlega úr sögunni árið 476. Býsansríkið hafði verið öflugt stórveldi en svo fór að leka úr því loftið með uppgangi Araba og íslams. Höfuðborgin Konstantínópel ellegar Mikligarður var þó enn langmesta borg í heimi.
Á fyrsta árþúsundi eftir Krists burð voru slétturnar í Mið-Asíu heilmikill suðurpottur þjóða sem flestar töldust ýmist íranskrar eða tyrkneskrar ættar, eftir því af hvaða rót tungumál þeirra var. Með reglulegu millibili sóttu þær inn í Miðausturlönd og/eða Evrópu. Seljúkar voru ein grein tyrknesku þjóðanna og bjuggu upphaflega milli Kaspíhafs og Aralvatns en fóru að feta sig inn í Persíu eða Íran laust fyrir árið 1000. Þá höfðu þeir nýlega tekið íslamstrú, eða um svipað leyti og Íslendingar tóku kristni. Seljúkar gerðu sig brátt mjög gildandi í Persíu og fóru svo að sækja inn í Mesópótamíu sem við köllum nú Írak. Árið 1056 náðu þeir Bagdad, höfuðborg hinna arabísku kalífa, sem þar höfðu setið síðan skömmu eftir dag Múhameðs. Seljúkar létu kalífana að vísu í friði en þeir voru valdalausar silkihúfur þaðan í frá og settir undir tyrkneska soldána. Og um 1070 börðu Seljúkar harkalega að dyrum Evrópu þegar soldáninn Alp Arslan réðist með öflugan her inn í Anatólíu og í frægum slag við Manzikert 1071 rústaði hann her Rómanosar keisara IV og tók hann til fanga. Meðal þeirra hersveita keisarans sem harðast börðust og voru að lyktum stráfelldar voru hinar norrænu lífvarðasveitir Býsanskeisara sem væringjar kölluðust. Alls ekki er óhugsandi að þar hafi borið beinin einhverjir íslenskir strákar af Suðurlandi eða utan af Nesjum sem hafi farið að leita sér frægðar og frama meðal væringja í heimsborginni Konstantínópel.
Tyrkir voru í evrópskum heimildum gjarnan sagðir siðlaus villidýr og blóðþyrstir grimmdarmenn. Allur gangur var þó á því. Þegar Alp Arslan lét leiða fyrir sig hinn sigraða keisara Rómanos spurði hann hvað keisari myndi gera við hann ef hlutverkum væri skipt.
„Ég myndi láta drepa þig eða leiða þig í hlekkjum um götur Konstanínópel,“ svaraði Rómanos hreinskilnislega.
„Ég ætla þér miklu harðari refsingu,“ sagði Alp Arslan. „Ég ætla að fyrirgefa þér og sleppa þér lausum.“
Var það svo gert og Rómanos komst aftur heim til Konstantínópel þar sem honum hafði að vísu verið steypt af stóli og var svo drepinn fljótlega. En eftirmenn hans töpuðu á skömmum tíma mestallri Anatólíu í hendur Seljúka sem líka lögðu undir sig Sýrland og Palestínu og það var gegn Seljúkum sem kristnir Evrópumenn fóru fyrstu krossferðina að hvatningu páfans í Róm árið 1096 og frömdu þar meiri og blóðugri hermdarverk en nokkur Tyrki hafði þá orðið sekur um.
Nú verður flókin saga einfölduð ansi mikið. En lendur Seljúka í Litlu-Asíu urðu brátt sérstakt tyrkneskt ríki sem kallaðist Rum, sem er afbökun af Róm – þar sem þetta var eitt af svæðum hins forna rómverska heimsveldis.
Stórríki Seljúka hnignaði hins vegar smátt og smátt og var úr sögunni laust fyrir 1200. Soldáninn í Rum hélt velli lengur en svo kom ný ógn úr austri, ósigrandi hermenn, Mongólar, voru þar á ferð. Árið 1243, á sama tíma og Þórður kakali var að hasla sér völl í hinni íslensku sturlungaöld, þá gersigraði mongólski herforinginn Bajú sveitir Rums og var tyrkneska ríkið þar með úr sögunni. Mongólar höfðu hins vegar hvorki mannskap né sinnu á að setjast að á þeim löndum sem þeir unnu og voru þeir fljótlega úr sögunni. Býsansríkið hafði nú tækifæri til að vinna á ný sín fornu héruð í Litlu-Asíu sem höfðu í bráðum tvær aldir verið undir stjórn Tyrkja en allar vonir um endurreisn Býsans höfðu reyndar orðið að engu í upphafi 13. aldar þegar grimmir og gráðugir krossfarar lögðu höfuðborgina Konstantínópel undir sig og ráku Býsansmenn í útlegð. Býsansmenn náðu borg sinni aftur um svipað leyti og soldáninn af Rum laut í lægra haldi fyrir Mongólum, en svo illa höfðu krossfarar þá leikið Býsans að ný keisaraætt í Konstantínópel hafði ekkert þrek til að leggja út í slík ævintýri. Áratugina til loka 13. aldar notuðu Tyrkir í Litlu-Asíu til að hnykla vöðvana aðallega hver framan í annan, og rétt í aldarlok kom í ljós að mestur þróttur virtist í litlum en knáum ættbálki sem tók að kenna sig við höfðingja sinn sem Osman hét. Fyrr á tíð var nafn hans oft skrifað Othman og því er ríki hans enn í dag kallað Ottómanaríkið. Osman ríkti í upphafi yfir smáskika nokkuð suður af Marmarasjó en þegar hann dó 1326 hafði hann klipið þó nokkrar lendur af Býsansríkinu og tyrknesku smáríkin inni í landi fóru svo hvert af öðru að játa yfirráð hans og arftaka hans. Og fer nú að verða tímabært að leggja af heitið Anatólía og nota orðið Tyrkland í staðinn. Þegar þarna var komið sögu hafði fjöldi tyrkneskra bænda flutt úr Mið-Asíu vestur til Tyrklands, en tyrkneskættað fólk var þó áreiðanlega ekki nema minnihluti íbúanna. Tyrkneska var hins vegar tekin upp á svæðinu og því varð meginþorri íbúanna tyrkneskur á fáeinum kynslóðum, þótt tyrknesk útlitseinkenni hafi horfið að mestu og enginn sérstakur útlitsmunur sé til dæmis á Grikkjum og Tyrkjum.
Nú er best að fara hratt yfir sögu. Arftakar Osmans tóku sér soldánstign og styrktu sífellt veldi sitt. Þeir komu sér upp mjög öflugum her og þótt þeir reyndust ekki þess umkomnir um sinn að leggja undir sig Kontantínópel þá fóru þeir bara framhjá borginni inn í Evrópu og fóru að brjóta undir sig Balkanskagann. Árið 1389 brutu þeir til dæmis Serba og bandamenn þeirra á bak aftur í sérlega mannskæðri og blóðugri orrustu þar sem hét Svartfuglaengi eða Kosovo. Leið svo ekki á löngu þar til þeir höfðu allan Balkanskaga á valdi sínu, þar á meðal Grikkland. Konstanínópel hélt hins vegar velli til 1453, en keisarinn þar réði þá engu nema því sem innan borgarmúranna var. Það var loks Ottómanasoldáninn Mehmet II sem náði borginni eftir langt umsátur þar sem Tyrkir beittu svakalegustu fallbyssum sem sést höfðu í veröldinni fram að því. Hlaupvídd þeirra var 60 sentímetrar eða þar um bil, en ekki þótti duga minna til að brjóta á bak aftur hina frægu múra Konstantínópel. Eftir að Tyrkjasoldánar náðu borginni nefndu þeir hana Istanbúl og gerðu hana að höfuðborg ríkisins og miðdepli stórveldis sem þandist æ meira út næstu tvær aldirnar. Áfram var sótt inn að hjarta Evrópu og árið 1529 var Tyrkjasoldáninn Suleimann hinn mikilfenglegi kominn alla leið að borgarmúrum Vínar. Hefði hann náð borginni hefðu Tyrkir verið í dauðafæri við ansi stóra hluta álfunnar en Suleiman þraut örendið þegar mest á reyndi og Vínarborg slapp. Einni og hálfri öld síðar eða 1683 komust Tyrkir aftur að múrum Vínarborgar en urðu þá aftur frá að hverfa eftir stóran slag við sameinaðan her margra Evrópuríkja.
Í millitíðinni höfðu Tyrkir lagt undir sig víðáttumikil flæmi í öðrum heimshlutum. Þeir náðu Mesópótamíu og Bagdad, Arabíu og Mekka og allri strönd Norður-Afríku. Í furstadæmum þeirra í Marokkó og Alsír urðu sjórán einn arðvænlegasti atvinnuvegurinn, og sjóræningjar þaðan komu sem kunnugt er alla leið til Íslands árið 1627. Er það kallað Tyrkjaránið þótt sjóræningjarnir geti ekki kallast Tyrkir að þjóðerni.
Fram á 18. öld var Tyrkjaveldi Ottómana óneitanlega mest veldi í Miðausturlöndum og Evrópu, enda ríkti mikill ótti við Tyrki meðal allra þjóða Evrópu. Þeir voru sagðir grimmir og miskunnarlausir svo þess væru engin dæmi, og náttúrlega hundheiðnir. Vissulega áttu Tyrkir til skefjalausa grimmd, en ekki verður samt séð að þeir hafi verið hótinu verri en Evrópumenn upp á sitt versta, til dæmis í hinu viðbjóðslega 30 ára stríði í Mið-Evrópu 1618-1648. Hvað trúarbrögðin snerti lögðu þeir alls ekki mikið upp úr því að snúa undirokuðum þjóðum Evrópu til íslam. Aðeins Albanir og Bosníakar undirgengust íslam og virðast hafa gert það meira og minna sjálfviljugir. Og Balkanþjóðirnar tóku heldur ekki upp tyrkneska tungu, eins og flestar þjóðir í Anatólíu höfðu gert á fáeinum kynslóðum. Aðeins svæðið í um 300 kílómetra í vestur frá Istanbúl varð tyrkneskt að einhverju ráði. Sama var upp á teningnum í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, hvergi kröfðust Tyrkir þess að þegnar sínar tækju upp tyrkneska tungu eða menningu.
En á átjándu öldinni kom í ljós að kraftur Tyrkjaveldis fór nú allur minnkandi. Soldánarnir voru þá löngu hættir að skipta sér að ráði af stjórn ríkisins, heldur lágu þeir í kvennafans og bræðravígum í Topkapi-höllinni í Istanbúl og höfðu meiri áhuga á að viða að sér fleiri konum í hið fræga kvennabúr en að stjórna landinu. Eru af atburðum í höllinni margar blóði drifnar og sveittar sögur sem ekki er tóm til að segja hér. Í bili er nóg að taka fram að upp frá þessu hnignaði Tyrkjaveldi hægt en örugglega uns það gekk undir nafninu „sjúklingurinn í Evrópu“. Sjúklingurinn lá lengi milli heims og helju en andaðist þó ekki og nú virðist Erdogan telja rétt að ræsa hann til lífsins með vopnaglamri.
Athugasemdir