Daginn eftir þingkosningarnar 2003 hitti ég einn helsta hugmyndafræðing Sjálfstæðisflokksins á förnum vegi. Þá hafði Davíð Oddsson stýrt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í samfleytt átta ár og það fór ekki milli mála að mikil þreyta var komin í samstarfið og erindi beggja flokka virtist alveg þorrið. Framsóknarflokkurinn hélt að vísu sínu fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði heilmiklu. Þrátt fyrir það höfðu flokkarnir tveir enn þingmeirihluta, þótt nú væri hann orðinn naumur, og strax á kosninganótt var ljóst að ríkisstjórn Davíðs myndi sitja áfram – þótt Framsóknarflokkurinn myndi vísast gera sig breiðari en áður. Og morguninn eftir hitti ég sem sagt þennan hugmyndafræðing Sjálfstæðisflokksins og spurði hann:
„Eruði ekkert orðnir leiðir á þessari ríkisstjórn? Eruði ekki búnir að fá nóg af Framsóknarflokknum?“
Og hugmyndafræðingurinn rak upp hlátur, ég segi og skrifa: Hann hló. Og sagði svo:
„Við erum ekki orðnir leiðir á …“
Og svo var hann nógu dramatískur til að hafa örstutta kúnstpásu áður en hann bætti við:
„… völdunum!“
Þessi hreinskilnislega játning rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég hitti mann sem „þekkir vel til í Sjálfstæðisflokknum“ eins og það er jafnan orðað í svona pistlum þar sem þarf að halda trúnað við viðmælanda. Eftir að við höfðum skipst á fáeinum kurteisisorðum um veðrið og hátíðarnar fór hann nefnilega að segja mér í óspurðum fréttum að nú liði málsmetandi mönnum í Sjálfstæðisflokknum afar illa. Já, það væri óhætt að segja að þeir væru flestir komnir með beinlínis og bókstaflega upp í kok af því stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn sem nú hefur samt ekki staðið nema í tæp þrjú ár. Framsóknarmenn væru svo furðulegir í samstarfi og einkum og sér í lagi liðu sómakærir sjálfstæðismenn önn fyrir að sitja í ríkisstjórn í skjóli hins dularfulla forsætisráðherra Sigmundar Davíðs.
Og jólakortið hans hefði verið eins og púnkturinn yfir i-ið í þeim furðum öllum sem ævinlega virðast fylgja þeim góða manni eins og skugginn.
Þið munið – jólakortið þar sem gamla skólarissið hans Guðjóns Samúelssonar húsameistara hefur verið tölvuteiknað inn í Vonarstrætið til merkis um að þarna ætlar Sigmundur Davíð að láta reisa skrifstofubyggingu fyrir Alþingi eftir þessum hundrað ára gömlu hugmyndum Guðjóns sem hann dró upp til að ganga í augun á kennurum sínum við listaháskólann í Kaupmannahöfn.
„Hann er farinn að líta mjög skringilega á hlutverk sitt.“
Sú var tíð að Sigmundur Davíð virtist hafa hinar nýtilegustu hugmyndir um skipulagsmál en þær eru nú komnar út í hreina vitleysu með jólakortinu góða og því uppátæki að vilja varðveita miðaldra grjótgarð við Reykjavíkurhöfn. Ekki er nóg með að forsætisráðherra sýnist þess albúinn að eyða í þessi skrýtnu gæluverkefni sín jafnvel hundruðum milljóna, sem sannarlega væri þörf fyrir annars staðar, heldur sýnir áhersla hans á þetta að hann er farinn að líta mjög skringilega á hlutverk sitt – og hugsunarhátturinn virðist stefna nokkuð í sömu átt og hjá ýmsum kunnum einræðisherrum sem þekktir eru fyrir að telja sjálfa sig eiga að ráðskast um alla hluti í ríki sínu, og smekkur þeirra á hvort heldur er húsbyggingum eða bókmenntum skal verða hinn opinberi smekkur ríkisins.
Og spurningin er þá sem sagt: Viljum við búa í slíku landi? Og lúta svoleiðis stjórn? – því slíkir valdamenn enda alltaf á því að vilja að þeim sé lotið.
Og þetta er, sagði kunningi minn sem sé, farið að vefjast svo fyrir sómakærum sjálfstæðismönnum að þeim er farið að líða verulega illa í stjórnarsamstarfinu með þessum nýja pópúlíska og stjórnlynda Framsóknarflokki.
En það fylgdi sögunni að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að láta sig hafa það.
Hann ætlaði að láta sig hafa það, nokkuð sorgmæddur samt, að hér réðu valdamenn sem augljóslega væru vanhæfir, óhæfir og skeytingarlausir um góða stjórnsýslu og hag venjulegs fólks, valdamenn sem vaða áfram um samfélagið eins og einfættir fílar í postúlínsbúð, skríkjandi og flissandi.
Ég verð að segja að ég vorkenni sjálfstæðismönnum ekki neitt. Þeir geta slitið þessu stjórnarsamstarfi hvenær sem þeim er í raun og sannleik nóg boðið. Hvenær sem góð stjórnsýsla og hagur venjulegs fólks verður þeim ofar í huga en eiginhagsmunir. Ég er smeykur um að það sé lítil hætta á slíku.
Flokkurinn er því miður síst af öllu orðinn leiður á … völdunum.
Athugasemdir