Þessa dagana berast fréttir af mikilli uppsveiflu í efnahagslífinu. Gengið styrkist, kaupmáttur eykst og fasteignaverð hækkar. Framtíðin er björt á Ísland, blússandi góðæri segja sumir. Þetta er hins vegar gamalkunnugt stef og allir þekkja framhaldið. Eftir góða og skemmtilega veislu fellur gengið eða verður fellt, verðbólgan fer á fulla ferð, kaupmáttur hrynur og bilið breikkar aftur milli okkar og nágrannalandanna.
Íslendingar eru farnir að átta sig á þessum veruleika og því að þessi óstöðugleiki er viðvarandi ástand og orsakar að samanburður við nágrannalöndin á velflestum lífskjaramælikvörðum er Íslandi verulega í óhag. Á sama tíma og allt virðist á uppleið á Íslandi er því stöðug aukning á flutningum ungs menntaðs fólks frá landinu. Þetta fólk skilur ekki afhverju það ætti að bjóða sjálfum sér eða börnum sínum uppá lakari lífskjör ef þeim stendur annað til boða. Og afhverju ætti þau að gera það? Samanburður þessa fólks er ekki hvernig fyrri kynslóðir höfðu það á Íslandi heldur hvernig þeirra eigin kynslóð hefur það annars staðar.
Saga síðustu áratuga á Íslandi er saga lélegrar og skammsýnar hagstjórnar og agaleysis í ríkisfjármálum. Ótrúleg orka og tími fer í að rífast um hvað veldur og stjórnmálamenn benda hver á annan en enginn hefur trúverðugar lausnir eða langtímastefnu. Allir eru þó sammála um nauðsyn þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapinn og auka aga í ríkisfjármálum en nú í fyrsta sinn virðast þessar innantómu klisjur ekki ná eyrum kjósenda og þeir farnir að leita eftir nýjum og trúverðugri röddum. Það er hins vegar ekki um auðugan garð að gresja í stjórnmálum á Íslandi og eini flokkurinn sem er ósnortinn af spillingu og klúðri fyrri ára og áratuga eru Píratar. Þeir tala mannamál, eru einlægir og virðast horfa á heildarhagmuni þjóðarinnar allrar og eru að uppskera í samræmi við það, allavega í skoðanakönnunum.
Vandinn er bara að hvorki Píratar, nýr gjaldmiðill, ESB né neitt annað mun geta leyst úr grundvallar vanda Íslendinga sem er fólksfæðin. Á Íslandi öllu býr svipaður fjöldi og í Aarhus eða Bergen og ég held að enginn í Danmörku eða Noregi láti sér detta í hug að þessir staðir geti sjálfir byggt upp og viðhaldið þeim infrastrúktur sem þarf til að reka heilt samfélag, leyst úr þeim mörgu og ólíku þörfum sem slíkt kallar á eða boðið upp á þá fjölbreytni sem æskileg væri. Fyrir utan kostnað per einstakling þá verður mannauðurinn aldrei nægur til að standa undir þeim gæðakröfum sem gerðar eru til stjórnkerfis, dómstóla, stjórnmála- og viðskiptalífs eða heilbrigðis- og menntakerfis. Íslendingar eiga margt afburðarfólk en ekki nóg til að fylla í allar þær stöður sem nauðsynlegar eru með þeirri hæfni sem þörf er á, ekki frekar en aðrir staðir af svipaðri stærðargráðu. Annað og ekki minna vandamál er að sérhagsmunirnir verða alltaf of nærri og of sterkir til að hægt sé að taka pólitískar ákvarðanir sem miða að hámörkun almannaheilla eða byggja á langtíma stefnumótun. Bæði þessi atriði auka síðan verulega hættu á spillingu, frændhygli og agaleysi sem, eins og allir íslendingar þekkja, kemur fram í stóru og smáu.
Því er kannski kominn tími til að hugsa hið óhugsanlega. Semsagt hvort hagsmunum íslendinga sjálfra og þá meina ég einstaklingana sem byggja þetta land sem og framtíðarkynslóða sé ekki betur borgið sem hluti af stærri þjóðarheild?
Hvað er sjálfstæði og fyrir hvern er það? Hvernig eru einstaklingarnir bættari með því að vera hluti af örþjóð sem kallar sig sjálfstæða? Það er lítill munur á því einstaklings- og athafnafrelsi sem þú upplifir á Íslandi og í öðrum lýðræðislöndum. Hins vegar er á Norðurlöndunum og öðrum þeim löndum sem við venjulega berum okkur saman við, umtalsvert meiri stuðningur við fjölskyldufólk og námsmenn, mikið meira námsúrval, sterkara heilbrigðiskerfi, skilvirkara stjórnkerfi, stöðugra efnahagsumhverfi, miklu stærri atvinnumarkaðir, sterkari réttindi almennings, mikið lægri vextir og svo framvegis. Það eru því margir augljósir kostir fyrir Íslendinga sem fylgdu því að tengjast stærra og þróaðara samfélagi en erfiðara að sjá hvaða hagsmunir eru fólgnir í því fyrir íbúa þessa lands, börn okkar og barnabörn að halda fast í hugsjónina um sjálfstætt Ísland. Ef tilfinningarökin eru tekin í burtu stendur lítið eftir.
Þetta er ný hugsun fyrir okkur flest og erfið, enda alin upp við sögur um sjálfstæðisbaráttuna og mikilvægi hennar fyrir Íslendinga. Ekki þarf að vanvirða þá baráttu en hún átti sér stað á öðrum tíma og öðrum tíðaranda og veruleika. Veröldin er allt önnur nú en þá og mikilvægt að horfa fram á veginn. Það er enginn ósigur eða uppgjöf fólgin í þessari hugsun. Við erum ekki að keppa við neinn. Þetta er spurning um ábyrgð og skyldur okkar sem einstaklinga og sú ábyrgð ætti fyrst og fremst að beinast að þeim sem á eftir koma, afkomendum okkar og komandi kynslóðum en ekki að verja eða réttlæta gjörðir þeirra sem á undan gengu.
Það er engin tilviljun að rúmlega 2 milljónir Skota sögðu „Nei“ og felldu tillögu um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári. Þetta fólk komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að hagsmunum þeirra og barna þeirra væri betur borgið innan Stóra Bretlands en utan. Margt bendir til að það sama gildi fyrir Íslendinga. Að betra væri að renna inn í stærra þjóðríki, verða þjóðarbrot í stærri heild, svipað og Færeyingar eða Skotar. Hugsanlega með sjálfstjórn en aðgang að betra menntakerfi, heilbrigðiskerfi, húsnæðiskerfi osfrv osfrv og ekki síst með alvöru stjórn á efnahags- og peningamálum. Þannig gætu framtíðarkynslóðir átt möguleika á sambærilegum lífskjörum og nágrannalöndin.
Sögulega- og menningarlega liggur beinast við fyrir Íslendinga að tengjast Danmörku eða Noregi en það þarf þó ekkert endilega að vera þannig. Landfræðilega er Ísland á mörkum Evrópu og Ameríku með söguleg tengsl við Kanada og því í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að hugsa vestur um haf.
Nýfundnaland með rúmlega hálfa milljón íbúa sameinaðist Kanada árið 1949 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er fullkomlega eðlilegt að svo fámennt samfélag eins og býr á Íslandi eigi erfitt með að uppfylla kröfur um nútíma samfélag og vafalítið yrði skilningur á slíkri fyrirspurn í öllum þeim löndum sem rætt væri við. Mikilvægt er að loka ekki á möguleika sem okkur gæti staðið til boða. Aðalspurningin ætti að vera hvar og hvernig er hagsmunum framtíðarkynslóða Íslendinga best borgið.
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef sjálfstæðið er forsenda þeirra framtíðarlausna sem við sjáum fyrir okkur þá mun það óhjákvæmilega fela í sér lakari lífskjör og tækifæri en bjóðast í nágrannalöndum okkar.
Hugsanlega er það gjald eitthvað sem margir eru tilbúnir að greiða svo hægt sé að kalla Ísland sjálfstæða þjóð og þá má kannski segja að samlíkingin við Bjart í Sumarhúsum sé loksins fullkomnuð. Það verða hins vegar börn okkar og barnabörn sem fyrst og fremst munu borga þetta gjald og því til mikils að vinna að skoða aðra möguleika.
Athugasemdir