„Einungis um 22% kjósenda Framsóknarflokksins eru hlynnt því að við tökum á móti sýrlenskum flóttamönnum“ samkvæmt nýlegri skoðanakönnun.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra flokksins, kallar loforð um að taka á móti tilteknum fjölda flóttamanna „pissukeppni“ og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lýst því yfir að aðgerðir Íslands skilyrðist af sjálfboðavinnu almennings.
Staðan er ljót. Tugir milljóna hafa flúið land og hundruð þúsunda hætta sér yfir Miðjarðarhafið árlega. Þar hafa hátt í 3 þúsund manns drukknað það sem af er þessu ári. Innri landamærum ESB er lokað, táragasi beitt og fólk kafnar í flutningabílum.
Á Íslandi hafa 25 sveitarfélög lýst yfir vilja til að taka á móti flóttafólki og þúsundir Íslendinga boðið fram krafta sína í átakinu „Kæra Eygló“.
Nú eru liðnar hátt í þrjár vikur síðan átakið fór af stað. Á þeim tíma hefur ríkisstjórn Íslands gert fátt annað en að halda fundi, ræða málin og spekúlera í hlutunum. Skipuð var ráðherranefnd til að „fara heildstætt yfir vandann“ og Gunnar Bragi segir að nefndin ætli að leiðrétta einhvern misskilning fyrir þjóðinni. Um leið gefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra út digurbarkalegar yfirlýsingar um að Evrópusambandinu muni sko ekki takast að neyða Ísland til að hjálpa fólki.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku var ákveðið að verja fimmtíu milljónum í kostnað vegna hælisumsókna á Íslandi. Á næsta ári lækkar reyndar fjárheimild Útlendingastofnunar um helminginn af þessari upphæð, eða 24 milljónir króna að raungildi. Svo er ágætt að hafa í huga að þær fjárhæðir sem hér eru nefndar eru aðeins brot af þeim fjármunum sem Landhelgisgæslan hefur aflað, sem hreinna tekna, með því að taka þátt í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi undanfarin ár.
Gunnar Bragi vill ekki taka þátt í „pissukeppni“ um fjölda hælisleitenda. Sviðsstjóri Rauða krossins segir hins vegar mikilvægt að Íslendingar tilkynni Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um þann fjölda fólks sem tekið verði á móti. Í raun sé ekki eftir neinu að bíða nema ákvörðun stjórnvalda.
Ísland er á meðal ríkustu landa í heimi. „Ég er þeirrar skoðunar að í dag séu Íslendingar í sterkustu stöðu sem við höfum nokkru sinni verið í, séð frá efnahagslegu sjónarmiði,“ sagði fjármálaráðherra nýlega í viðtali. Svigrúmið í ríkisfjármálum er mun meira en það hefur nokkurn tímann verið frá hruni. Samt láta ráðamenn eins og það sé Íslandi um megn að taka skjótt og vel á móti sómasamlegum fjölda flóttafólks.
Hvers vegna? Hvað á þessi seinagangur að þýða? Er ekki raunveruleg samstaða um málið í ríkisstjórn? Getur hugsast að framsóknarmenn séu hræddir um að styggja þann stóra hóp kjósenda sinna sem vill síður að Ísland taki á móti sýrlensku flóttafólki?
Athugasemdir