Á árunum fyrir hrun hækkuðu laun stjórnenda fjármálafyrirtækja upp úr öllu valdi. Í samfélagi þar sem almennt hafði ríkt jöfnuður varð til ný stétt auðmanna, á launum sem voru ekki í neinum takti við það sem áður hafði þekkst hér á landi. Rökstuðningurinn var fyrst og fremst þríþættur; að laun yrðu að vera samkeppnishæf við erlendan markað, að þau væru árangurstengd og bankarnir væru að skila miklum hagnaði og síðast en ekki síst að ábyrgð stjórnenda bankanna væri svo mikil. Þar til bankarnir féllu. Þá bar enginn ábyrgð á neinu.
Bankamenn bentu á alþjóðlegan markað, óskýrt regluverk og stjórnmálamenn sem bæru ábyrgð á því að skapa rammann sem þeir gætu starfað innan. Í ljós kom að eftirlit með bönkunum var lítið sem ekkert, stofnanir voru fjársveltar og getan takmörkuð. Stjórnmálamennirnir vildu heldur ekki axla ábyrgð á því sem hér gerðist, bentu á siðleysi bankamanna og skýldu sér á bakvið framgöngu þeirra. Að lokum var einn þeirra dreginn fyrir Landsdóm og dæmdur fyrir lítils háttar brot. Hann var þó ekki á því að ábyrgðin væri hans og hélt áfram að vísa henni frá sér. Alveg eins og bankamennirnir sem fóru fyrir dóm. Enginn þeirra játaði brot sín, heldur hafa þeir þvert á móti talað fyrir sakleysi sínu.
Ábyrgðin
Þetta virðist ríkjandi stef í menningu okkar. Heilbrigðisráðherra sver af sér ábyrgð á einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og umhverfisráðherra kvaðst tilneyddur til að samþykkja virkjun á miðhálendinu sem hann hafði lofað að vernda.
Þegar dómsmálaráðherra fór gegn mati hæfisnefndar við skipan dómara sættist Alþingi á þær skýringar að tilviljun réði því að einn þeirra er maki flokksbróður hennar á þingi og annar eiginmaður fyrrverandi samstarfsfélaga. Þingmenn sögðust ekki bera ábyrgð í málinu, sem stillt var upp sem kynjapólitík.
Líklega var það líka tilviljun að Þorsteinn Davíðsson Oddssonar var fyrsti héraðsdómarinn sem var hvorki metinn mjög vel hæfur né vel hæfur, skipaður af ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Eða þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins skipaði Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara þvert gegn tillögu Hæstaréttar.
Þegar innanríkisráðuneytið lak viðkvæmum persónulegum upplýsingum um hælisleitendur í fjölmiðla í pólitískum tilgangi var viðkvæði ráðherrans að umfjöllun um málið á Alþingi og opinberum vettvangi væri „ljótur pólitískur leikur“. Hanna Birna Kristjánsdóttir hafði verið staðin að fordæmalausri valdníðslu með ítrekuðum og miklum afskiptum af rannsókn málsins, þar sem hún hafði afskipti af lögreglu, fjölmiðlum, bendlaði hjálparsamtök, öryggisverði og ræstingafólk að ósekju við málið, villti um fyrir þinginu og reyndi hvítþvottarrannsókn, en hélt enn fram sakleysi sínu og gaf í skyn að umboðsmaður Alþingis setti fram „eigin dylgjur og dóma án rökstuðnings eða réttarhalda“. Seinna kvartaði hún undan stöðu sinni sem kona í stjórnmálum, að hún mætti ekki spila sama leik og karlarnir.
„Þessi blaðamennska er fyrir mér skandall“
Þegar Bjarni Benediktsson var staðinn að því að hafa skrifað undir viðskiptapappíra í vafasömu Vafningsfléttunni yppti hann öxlum og sagðist ekki hafa þekkt til. Umfjöllun um málið væri ekkert annað en innihaldslausar pólitískar árásir. Þegar hann hafði sagt ósatt um notkun sína á skattaskjóli sagðist hann ekki hafa vitað af eignum sínum þar. Þegar banki í eigu ríkisins seldi fyrirtæki til föðurbróður hans í lokuðu ferli langt undir markaðsvirði á meðan hann var fjármálaráðherra afskrifaði hann umfjöllun um tengsl hans við kaupendur Borgunar sem dylgjur, „þessi blaðamennska er fyrir mér skandall“.
Og núna þegar hann skrifaði undir uppreist æru lögmanns sem braut kerfisbundið á unglingsstúlkum bar Bjarni heldur enga ábyrgð. Ekki frekar en forsetinn.
Dómarnir
Við búum í meintri jafnréttisparadís, þar sem þetta gerist: Einstæð móðir sem kemur til landsins með dóttur sinni og fíkniefni í farangrinum, burðardýr sem er notað sem tálbeita í misheppnaðri leit lögreglu að þeim sem stóðu að, skipulögðu og fjármögnuðu smyglið, er dæmd í ellefu ára fangelsi. Að flytja inn fíkniefni er glæpur og engin ástæða til að gera lítið úr því. En skoðum samhengið.
Nokkrum árum áður var maður, landsþekktur lögmaður hér á landi, virkur í störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir vörslu barnakláms, ítrekuð, langvarandi og þaulskipulögð brot þar sem hann tældi til sín ungar stúlkur með blekkingum, bar á þær fé og skildi eftir í sárum sínum. Dómurinn náði ekki einu sinni ári fyrir hverja stúlku sem hann misnotaði, en þegar hann var dæmdur aftur fyrir sömu brot gegn fimmtu stúlkunni, var honum ekki gerð refsing vegna þess hve þungur fyrri dómurinn þótti vera.
Þessum sjónarmiðum hefur fyrrverandi hæstaréttardómari nú haldið á lofti: „Þetta var nú þungur dómur og allir sem töldu það,“ í umræðu um að hann eigi nú skilið óflekkað mannorð.
Réttarkerfið
Umræddur fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefur reyndar ítrekað lýst sérstæðum viðhorfum í kynferðisbrotamálum. Sem lögmaður hélt hann uppi vörnum fyrir mann sem var sakaður um kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Maðurinn var sýknaður fyrir Hæstarétti en lögmaðurinn gekk svo hart gegn dótturinni í opinberri umræðu að hann var dæmdur til að greiða henni miskabætur vegna framgöngu sinnar í fjölmiðlum. „Það er víst nóg lagt á aumingja manninn,“ segir hann nú um lögmanninn, Róbert Downey og biður um að vera ekki truflaður á meðan hann spilar golf. Samúðina skortir ekki.
„Það er víst nóg lagt á aumingja manninn“
Sem dómari skilaði Jón Steinar gjarna sératkvæðum, enda á þeirri skoðun að dómstólar geri of vægar sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum. Ríkissaksóknari krafðist þess að hann viki sæti í kynferðisbrotamáli, því ef fallist væri á sjónarmið dómarans væri „óhjákvæmilegt að sýkna í flestum, jafnvel öllum málum af þessu tagi svo framarlega sem ákærðu neituðu staðfastlega sök.“ Dómari sem var skipaður þvert gegn mati Hæstaréttar af ráðherra Sjálfstæðisflokksins, einn úr klíkunni, Eimreiðarhópnum.
Reyndar þurfti ríkissaksóknarinn sjálfur að gera grein fyrir viðhorfum sínum gagnvart kærendum í kynferðisbrotamálum eftir að hann var kallaður á fund með dómsmálaráðherra vegna ummæla á borð við þessi: „Þarna játaði hann verknaðinn, en játaði ekki að hafa ætlað að nauðga manneskjunni. Það er heljarinnar munur þar á. Ég er hræddur um að það þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef menn ætluðu sér að telja öll svona atvik sem nauðganir og dæma alla. Það væri ekki bara alvarlegt heldur skelfilegt að senda menn á Litla-Hraun án þess að þeir viti nokkurn tímann af hverju, hvað þeir gerðu. Þú getur rétt ímyndað þér að eftir svona djamm væri lífi þeirra lokið.“ Samúðina skorti heldur ekki þar.
Skömmu áður var yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu færður til í starfi vegna ummæla sinna um ábyrgð þolenda kynferðisbrota.
Rannsóknin
Á meðan rannsókn á glæpum Róberts stóð yfir hélt hann ekki aðeins áfram að verja barnaníðinga fyrir dómi og sitja yfir börnum þegar þau gáfu skýrslu um ofbeldi sem þau voru beitt, heldur braut hann aftur gegn ungri stúlku í krafti stöðu sinnar og reynslu. Annarri sendi hann skilaboð, sagðist sakna hennar og vonast til þess að þau gætu „tekið upp okkar gamla góða samband“. Saklaus uns sekt er sönnuð.
Þetta er maður sem sinnti hagsmunagæslu fyrir þolendur í sakamálum. Maður sem hefur nú fengið uppreist æru og endurheimt lögmannsréttindin, án þess að hafa nokkurn tímann játað misgjörðir sínar eða iðrast, aðeins farið fram á að mannorð hans verði hreinsað af ofbeldinu sem hann beitti, svo hann geti endurheimt réttindin sem hann var sviptur að kröfu saksóknara.
Eftir að fyrri dómur féll var hann kærður aftur. Rúmt ár leið þar til skýrsla var tekin af honum vegna þess að lögreglan sagðist ekki hafa náð í hann. Tæp tvö ár liðu þar til rannsókn var gerð á tölvugögnum í málinu.
Dráttur á rannsókn mála er ekkert einsdæmi. Fyrr á þessu ári fékk maður aðeins átján mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa hátt í 50 þúsund barnaníðsmyndir í vörslu sinni vegna þess að rannsókn málsins tafðist óhóflega og tók hátt í þrjú ár. Áður hafði sami maður verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn stúlkum á aldrinum sex til níu ára.
Mistökin
Kerfið sem við höfum skapað fyrir þolendur ofbeldis bregst ítrekað. Ekki er langt síðan lagaprófessorinn sem samdi frumvarpið sem síðar varð að kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sagði ekki hægt að líta á dóm Hæstaréttar öðruvísi en sem „alvarleg mistök“ því meirihluti dómsins hafði komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki brot á kynfrelsi konu að stinga fingrum upp í leggöng hennar og endaþarm og klemma á milli.
„Tekið upp okkar gamla góða samband“
Undanfarið hafa Stígamót lýst því yfir að erfitt sé að mæla með því að kæra kynferðisofbeldi og jafnvel æskilegt að mæla fólki frá því. Hvað segir það um okkur sem samfélag ef þeir sem aðstoða þolendur kynferðisglæpa treysta sér ekki til að mæla með því að þeir leiti til lögreglunnar?
Tæpur fimmtungur þeirra nauðgunarmála sem tilkynnt voru til lögreglu á árunum 2008 og 2009 lauk með sakfellingu. Flestum var vísað frá.
Og þegar lögmaðurinn var fundinn sekur um kynferðisbrot var miskinn sem hann olli fimmta fórnarlambi sínu, refsilaust, metinn á 300 þúsund krónur.
Takk fyrir.
Frelsið
Lögmaðurinn flutti til Spánar. Á meðan sátu stúlkurnar eftir með skaðann, sem kostar ómælda vinnu, tíma og peninga að vinna úr. Líf þess sem er sviptur kynfrelsi sínu verður ekki samt, þótt það geti verið gott. Hann er rændur frelsi, sjálfsvirðingu, öryggi, trú og trausti á sér og öðrum. Stúlkurnar sátu uppi með sektarkennd og skömm, sem var aldrei þeirra, heldur mannsins sem beitti þær ofbeldi, kerfis sem brást, og þeirra sem áttu að axla ábyrgð á því en vísuðu henni frá sér.
Ekkert gerist í tómarúmi. Kerfið sem bregst er mótað af fólki sem við kjósum sem fulltrúa okkar á Alþingi. Þeir hafa löggjafarvaldið í höndum sér og það voru þeir sem grófu tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá þrátt fyrir afdráttarlausan vilja þjóðarinnar. Það eru stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á þeirri ákvörðun að skera niður í heilbrigðiskerfinu þar til það varð svo illa statt að þegar ein stúlkan reyndi að svipta sig lífi eftir ofbeldið átti að senda hana heim um leið og hún komst aftur til meðvitundar, af því að barna- og unglingageðdeildin var yfirfull. Þeir bera líka ábyrgð á því að lögreglan er svo fjársvelt að Landssamband lögreglumanna segir Sjálfstæðisflokkinn hafa lagt löggæslu á Íslandi í rúst, kynferðisbrotadeildin ræður ekki við verkefnin og öryggismyndavélar í miðbænum virka ekki.
Hvers konar samfélag er það? Svar föðurins er einfalt: „Þjóðfélag sem sinnir ekki börnum sínum er ekki gott þjóðfélag.“
Samfélag sem bregst börnum en afléttir kerfisbundið ábyrgð af þeim sem eiga að hafa hana er stýrt af öðrum hagsmunum en okkar allra.
_____
Ítarleg greining á aðferðum Róberts Árna og umfjöllun um mál hans, með viðtölum við stúlkurnar, birtist í nýju tölublaði Stundarinnar. Hægt er að lesa hana hér: Stelpurnar segja alla söguna, en þar stígur fimmta stúlkan fram.
Umfjöllun Kompáss um málið þegar það kom fyrst upp má sjá hér. Þar lýsir Róbert Árni Hreiðarsson, nú Róbert Downey, sakleysi sínu:
Athugasemdir