Hverju samfélagi er einna mikilvægast af öllu hvað börnum er kennt. Flest börn á Íslandi eru látin undirgangast fermingarfræðslu, kennslu um siðferði, sjálfið og heiminn þegar þau verða um 14 ára gömul.
Kjarninn í fermingarfræðslu flestra barna á Íslandi er að til sé alvöld og ósýnileg vera, sem trúa beri á.
Kennsla í vantrú á vísindi
Í fermingarfræðslubókinni Con dios (með Guði), sem gefin er út af Skálholtsútgáfunni og er sögð „marka skref í átt að nýjum kennsluháttum í fermingarfræðslunni“, er lögð sterk áhersla á kærleika og heilbrigð gildi. Einnig er fjallað um hið illa í heiminum. Bókin virðist að öðru leyti vera tilraun til að sannfæra unglinga um að efni 1.900 til 3.400 ára gamallar bókar um boðskap hinnar alvöldu veru og fulltrúa hennar á jörðu sé í fullu samræmi við þá þekkingu sem mannkynið hefur aflað sér á árunum eftir, í gegnum miðaldir, endurreisnina, upplýsinguna, iðnbyltinguna, tæknibyltinguna, alþjóðavæðinguna og upplýsingabyltinguna, svo eitthvað sé nefnt.
En til þess að það gangi upp þarf að sannfæra unglingana um að taka vísindalegri þekkingu með fyrirvara.
Í kafla undir heitinu: „Hverju trúir þú“ er þannig færð fram afstæð sýn á vísindalega þekkingu. Svo segir undir titlinum „Túlkun staðreynda“: „Vísindin glíma fyrst og fremst við rannsóknir og túlka niðurstöður þeirra. En vísindamennirnir eru sjaldnast sammála um hvernig eigi að túlka niðurstöður og staðreyndir.“
Kaflinn snýst því um að ala upp afstæðishyggju meðal unglinga og fá þá til að trúa því að vísindalega uppsöfnuð þekking mannkyns sé almennt umdeilt túlkunaratriði. Með þeim hætti er auðveldara að fá þá til að trúa á alvöldu, ósýnilegu veruna og áhrif hennar á líf þeirra.
Afstæðishyggja og afstöðuleysi
Eitt grundvallaratriði vísinda er að fræðilega mögulegt sé að afsanna kenningar, en vísindin eru ekki bara túlkunaratriði sem vísindamenn eru almennt ósammála um, heldur uppsöfnuð, endurtakanleg reynsla af heiminum, sem er þó stöðugt til endurmats.
Afstæðishyggja gagnvart vísindum getur hins vegar til dæmis ýtt undir þá skoðun að það sé alltaf bara túlkunaratriði hvort útblástur gróðurhúsaáhrifa valdi hlýnun jarðar, og hvort hún sé á ábyrgð manna. Til dæmis er mun algengara að trúlausir Bandaríkjamenn trúi því að gróðurhúsaáhrif eigi sér stað, og að þau séu raunverulegt vandamál, heldur en trúaðir. Þekkingarfræðileg afstæðishyggja hvetur til vanvirkni í afstöðu, deyfir vitsmunalega, og réttlætir að hið óréttlætanlega sé látið viðgangast. Eftir allt saman er auðvelt að líta svo á að hin alvalda vera beri endanlega ábyrgð, eða meðtaka þá endanlegu skýringu að hið illa sé að verki.
Í fermingarfræðslunni er kennt að sköpunarkenningin sé rétt, að maðurinn hafi verið skapaður af Guði. Hins vegar geti þróunarkenningin líka verið rétt. „Báðar lýsingarnar eru réttar en eiga við í ólíkum aðstæðum,“ segir í bókinni. Þá segir að vísindamenn hafi komist að því að allir jarðarbúar hafi hvatbera-DNA sem kemur frá einni og sömu konunni, sem væri þó ekki sönnun fyrir því að aðeins tvær manneskjur hafi verið uppi á sama tíma. „Það er nú engu að síður spennandi ef frumforeldrarnir væru Adam og Eva sem Biblían segir frá!“
En þetta er ekki svona eins og börnunum er kennt. Öll staðfestanleg þekking okkar um uppruna mannkyns segir að við þróuðumst smám saman sem tegund, en erum ekki afkomendur pars sem komið var fyrir hér á jörðu og sveik alvitru veruna.
Íslenska þjóðkirkjan er almennt ekki mikið öfgatrúuð og í fermingarfræðslubók kirkjunnar er lítið fjallað um svörtustu kafla Biblíunnar, líkt og hommahatur, réttlætanleg þjóðarmorð og fleira. Meiri áhersla er lögð á kærleikann. Það er jafnvel sagt að það sé í góðu lagi að efast um Guð.
Samkvæmt bókinni er trúin er eins og hrifning. „Það er ekki alltaf þannig að fjölskyldan og vinir skilji hvers vegna maður er hrifin/n af einhverjum/einhverri. Á sama hátt og allir sem standa manni næst skilja ekki hvers vegna maður geti trúað á Guð.“
Þá kemur fram að ef efinn um Guð bankar upp á sé til einfalt ráð. Að tala við hann. „Á þessum erfiðu dögum getur maður sagt: „Guð, ég vil gjarnan trúa á þig, en í dag á ég dálítið erfitt með það.“ Meira þarf ekki að segja.“
Börnunum er því kennt að lausnin á efasemdum sé að gefa sér niðurstöðuna, sem er rökfræðilegt afhroð.
Setjum pening í að fjölga í kirkjunni
Síðustu fimmtán ár hefur fækkað um eitt prósentustig í Þjóðkirkjunni á hverju ári. Í forsíðuumfjöllun Stundarinnar kemur fram að bæði Þjóðkirkjan og forsætisráðherra hafa áhyggjur af þessu. Starfshópur kirkjuþings hefur ákveðið að verja 150 milljónum króna í að auka nýliðun í Þjóðkirkjunni á næstu fimm árum.
Ríkið borgar 700 milljónir króna á ári til Þjóðkirkjunnar, fyrir utan sóknargjöld og fleira. Á sama tíma fær greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins rúmlega 430 milljónir á ári til að hjálpa börnum með alvarlegar þroskaraskanir eða fatlanir að eignast betri framtíð. Þar eru 400 börn á biðlista.
„Leyfið börnunum að koma til mín.“
Fulltrúi ríkisins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, hefur áhyggjur af kirkjunni og bað biskup um að skrifa sér bréf um það. „Þetta bréf var skrifað að beiðni minni þar sem ég hafði orðið þess áskynja að kirkjan teldi vanta nokkuð upp á fjárveitingar,“ sagði hann.
Sigmundur hefur meira að segja hvatt kirkjuna til að líta á sig sem boðbera sannleikans og taka gagnrýni verr en hún gerir. „Nálgun kirkjunnar verður að vera sú að hún sé að boða hið rétta … Kirkjan á að vera óhrædd við að minna á mikilvægi sitt og gildi sitt. Og jafnvel að vera stundum viðkvæmari fyrir árásum og gagnrýni,“ sagði hann í ræðu á síðasta kirkjuþingi.
Tómarúmið
Prestar hafa lýst yfir áhyggjum af tómarúminu og tómhyggjunni sem heltaki land og þjóð ef fólk hættir að trúa á Guð, eins og gildi og siðferði muni hverfa með trúarbrögðum. En til er fræðsla fyrir unglinga um líf, sjálf og heiminn, sem byggir ekki á trúarbrögðum. Þar er ekki kennsla um baráttuna við hið illa og hvernig ósannanlegar fullyrðingar geti verið gildar ef efasemdunum er snúið frá trúnni yfir á vísindin.
Um 8 prósent barna á fermingaraldri hafa skráð sig í fermingarfræðslu hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt. Fræðslan er veraldleg og gengur út á að efla gagnrýna hugsun og rökræðu. Samkvæmt lýsingu Siðmenntar er efni fræðslunnar meðal annars „hvernig er að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, fordómar og fjölmenning, hamingjan og tilgangur lífsins, skaðsemi vímuefna, sjálfsmynd unglinga og samskipti kynjanna, sorg og áföll, samskipti unglinga og fullorðinna, hverju getur maður trúað?“
Sumt í kennsluefni Siðmenntar, sem er kennsluhefti Jóhanns Björnssonar byggt á Æfingum í heimspeki, er í svipuðum anda og kristilega fermingarfræðslan. Hins vegar þarf ekki að aðlaga efnið að og verja tíma í að koma fyrir tilvist Guðs, og haga því þannig að allt hverfist um hana.
Líklega er allra mikilvægasta álitamál tilvistar okkar hvernig við kennum börnum að hugsa og lifa. Ef við kennum börnum sérstaklega að beita rangri rökfræði og gröfum undan trú þeirra á viðurkenndar aðferðir við uppsöfnun þekkingar er líklegt að við séum að skapa jarðveg fyrir verri ákvarðanir og minna farsæla framtíð en væri mögulegt.
Athugasemdir