Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að eignir Samherja verði frystar á meðan rannsókn stendur yfir vegna Namibíumálsins. Þá vill hún að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja stígi til hliðar á meðan málið er til skoðunar.
„Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur,“ skrifar Helga Vala á Facebook. „Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum. Hér er ekki um einhverja sjoppu að ræða heldur milljarðafyrirtæki með umtalsverð umsvif í fjölda ríkja og skattaskjólssvæðum. Minni á að eignir dægurlagahljómsveitarinnar Sigurrósar voru frystar vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum hljómsveitarmeðlima sem varðaði nokkra tugi/hundruð milljóna.“
Kristján Þór Júlíusson var stjórnarformaður Samherja um árabil, en er nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kristján Þór kom á fund með namibísku þremenningunum í höfuðstöðvum Samherja árið 2014 og kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, hann fyrir þeim sem „sinn mann“.
„Þá tel ég heldur ekkert annað koma til greina en að sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja stígi til hliðar á meðan á rannsókn héraðssaksóknara stendur enda málið algjörlega fordæmalaust,“ skrifar Helga Vala.
Athugasemdir