Tvö eignarhaldsfélög Samherja á Kýpur greiddu rúmlega 280 milljónir króna í mútur til eignarhaldsfélags James Hatuikulipi í Dubai eftir að Jóhannes Stefánsson hætti hjá fyrirtækinu í júlí árið 2016. Þetta eru hærri mútugreiðslur en bárust til Dubai-félagsins þegar Jóhannes starfaði hjá Samherja í Namibíu á árunum 2012 til 2016 en þá námu greiðslurnar tæplega 220 milljónum. Þetta sýna gögnin sem Wikileaks, Stundin, Kveikur og Al Jazeera vinna úr í sameiningu.
Jóhannes stýrði hins vegar aldrei bankareikningum félaganna á Kýpur, hvorki meðan hann starfaði hjá Samherja né eftir að hann lét af störfum hjá félaginu. Jóhannes var með prókúru á bankareikningum Samherjafélaga í Namibíu en ekki á Kýpur, hvorki meðan hann starfaði þar né eftir að hann hætti.
Síðustu millifærslurnar sem miðlarnir hafa heimildir fyrir eru frá því í byrjun þessa árs, frá 9. og 31. janúar 2019 en þá var Jóhannes búinn að setja sig í samband við Wikileaks út af Namibíumálinu með það fyrir augum að upplýsa um millifærslurnar.
Getur Jóhannes hafa stýrt bankareikningunum?
Samherji heldur því fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær að Jóhannes Stefánsson beri einn ábyrgð á mútugreiðslunum. Neitar Þorsteinn Már Baldvinsson því ekki að greiðslurnar hafi átt sér stað: „Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, eftir þátt Ríkisútvarpsins þar sem margvíslegar ásakanir komu fram á hendur fyrirtækinu.
Ef það sem Þorsteinn Már segir er rétt þá hefur Jóhannes Stefánsson náð að stýra og framkvæma greiðslur frá fyrirtækjum Samherja á Kýpur, Esju Seafood og Noa Pelagic Ltd., upp á 280 milljónir króna eftir að hann hætti að vinna hjá Samherja. Hvernig Jóhannes á að hafa getað gert þetta kemur ekki fram í yfirlýsingu Samherja. Einnig kemur ekki fram hvaða hagsmuni Jóhannes á að hafa haft af því sem einstaklingur að stunda mútugreiðslur til aðila sem útveguðu Samherja kvóta af reikningum Samherjafélaga eftir að hann hætti að vinna þar fyrir rúmlega þremur árum.
Í þessu felst líka að Jóhannes hefur þurft að hafa komið að mútumillifærslunum frá Kýpur, með einhverjum hætti, eftir að hann ákvað að upplýsa um málið og vinna við það var hafin.
Millifærslurnar innan Namibíu
Við þessar millifærslur frá Kýpurfélögunum, sem Jóhannes stýrði aldrei og hafði aldrei prókúru fyrir, bætast millifærslur frá Namibíufélögum Samherja til fyrirtækja Namibíumannanna. Þessar millifærslur eru fjölmargar og umfangsmiklar.
Árið 2018 millifærði Samherjafélög í Namibíu til dæmis 16 sinnum inn á reikninga eignarhaldsfélaga í eigu þremenninganna, meðal annars JTH Trading og Fitty Entertainment. Þessar millifærslur námu í heildina meira en 70 milljónum króna.
Jóhannes Stefánsson hafði á þessum tíma ekki lengur prókúru yfir þessum bankareikningum eða aðgang að þeim með nokkrum hætti enda löngu hættur að vinna hjá Samherja þegar þessar mútugreiðslur áttu sér stað.
Athugasemdir