Aðilar í sjávarútvegi, útgerðarfélög, fiskvinnslur, fiskútflytjendur, ásamt fiskeldisfyrirtækum, styrktu ríkisstjórnarflokkana þrjá um ellefu milljónir króna á síðasta ári. Þar af fékk Sjálfstæðisflokkurinn hæstu upphæðina og frá flestum aðilum, tæpar sex milljónir króna. Styrkir frá aðilum í sjávarútvegi námu tæpum 40 prósentum allra styrkja frá lögaðilum sem Framsóknarflokkurinn fékk á síðasta ári. Styrkir frá aðilum í sjávarútvegi náum um 44 prósentum styrkupphæðar frá lögaðilum sem Vinstri græn fengu árið 2018.
Stærstu útgerðarfyrirtæki landsins er að finna sem styrktaraðila flokkanna þriggja. Þannig styrkti Samherji Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkinn um 400 þúsund krónur hvorn flokk, en það er hámarksupphæð sem hver lögaðili má styrkja stjórnmálaflokk um. Samherji styrkti svo Framsóknarflokkinn um 200 þúsund krónur. Samherji er eina fyrirtækið í sjávarútvegi sem styrkti alla stjórnarflokkana þrjá.
KS styrkti alla stjórnarflokkana
Kaupfélag Skagfirðinga, sem á eitt stærsta útgerðarfélag landsins, Fisk Seafood, styrkti einnig flokkana alla, Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græn um 400 þúsund hvorn flokk og Framsóknarflokkinn um 200 þúsund. Séu þær upphæðir teknar með í reikninginn styrktu fyrirtæki í sjávarútvegi því flokkana þrjá um tólf milljónir króna á síðasta ári.
Önnur stórfyrirtæki í sjávarútvegi styrktu ýmist einn eða tvo stjórnaflokkanna árið 2018. Þannig styrkti Ísfélag Vestmannaeyja bæði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn um hámarksupphæð, 400 þúsund krónur. Síldarvinnslan í Neskaupsstað styrkti hins vegar bæði Framsóknarflokkinn og Vinstri græn um 400 þúsund. Rammi á Siglufirði styrkti þá Framsóknarflokkinn um 400 þúsund krónur og Sjálfstæðisflokkinn um 250 þúsund krónur. Hvalur hf., fyrirtæki Kristjáns Loftssonar, styrkti Framsóknarflokkinn um 150 þúsund og Sjálfstæðisflokkinn um 400 þúsund krónur. Skinney-Þinganes styrkti Framsóknarflokkinn um 400 þúsund krónur og Vinstri græn um 50 þúsund krónur. Brim styrkti síðan Vinstri græn um 200 þúsund krónur.
Fiskeldisfyrirtæki einnig á listunum
Þá styrktu fiskeldisfyrirtæki flokkana einnig. Arnarlax á Bíldudal styrkti Framsóknarflokkinn um hámarksupphæð, 400 þúsund krónur, og slíkt hið sama gerði Laxar-fiskeldi. Landeldisstöðin Sleipnir, sem er í eigu Fiskeldis Austfjarða, styrkti þá Sjálfstæðisflokkinn um 300 þúsund krónur.
Alls styrktu fjórtán aðilar í sjávarútvegi Framsóknarsflokkinn á síðasta ári, fimm styrktu Vinstri græn en 28 aðilar styrktu Sjálfstæðisflokkinn. Lægstu styrkirnir sem Sjálfstæðisflokkur fékk voru 10 og 20 þúsund krónur, frá Narfa ehf. og Sæfelli hf.
Auk styrks sjávarútvegsfyrirtækjanna sem nefnd eru hér að frama vekur athygli að Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur styrkti bæði Framsóknarflokkinn og Vinstri græn um sínar 50 þúsund krónurnar hvorn flokk. Þá styrkt Verkalýðsfélag Suðurnesja Vinstri græn um 30 þúsund krónur. Engin verkalýðsfélög styrktu Sjálfstæðisflokkinn.
Athugasemdir