Lögreglan er bara að vinna vinnuna sína. Látið hana í friði. Hún fær skipanir um miðja nótt og þarf að framfylgja þeim. Ekki þeim að kenna. Einhver þarf að gera þetta. Einhver þarf að ýta á takkann sem kveikir á blikkljósunum lögreglubíls sem stendur fyrir utan kvennadeild Landspítalans. Einhver þarf að leyfa bláu ljósunum að loga. Einhver þarf að hunsa tilmæli heilbrigðisstarfsfólks um að konan ætti ekki að fljúga. Einhver þarf að ljúga því að til sé annað vottorð, sem enginn má sjá, um að hún megi fljúga. Einhver þarf að koma þessari meinlausu fjölskyldu úr landi. Einhver þarf að beita hælisleitendur og flóttafólk ofbeldi. Einhver þarf að beita þá sem mótmæla vinnubrögðum útlendingastofnunar ofbeldi. Einhver þarf að leyfa nýnasistum á Lækjartorgi að predika málstað sinn án þess að lögreglan sé að vasast í þeim gjörning. Bara nýnasistar á Lækjartorgi að vinna vinnuna sína. Látið þá í friði.
Starfsfólk Útlendingastofnunar er bara að vinna vinnuna sína. Látið þau í friði. Þau starfa samkvæmt löggjöf íslenska ríkissins og henni ber að framfylgja. Engin óvild. Engin innbyggð mannvonska. Svona eru bara lögin. Ísköld og svalandi. Einhver þarf að taka ákvörðun um að vísa fjölskyldum úr landi um miðja nótt. Svona vanþakklátar ákvarðanir taka sig ekki sjálfar. Það þarf að skrifa undir fullt af skjölum, stimpla þau, rétta fólki sem fer með þau á staði þar sem konur liggja kasóléttar. Þar sem bláu ljósin blikka þarf að framfylgja því sem stendur á skjölunum. Þannig bara virkar þetta. Engum að kenna. Bara starfsfólk Útlendingastofnunar að vinna vinnuna sína.
„Ólétt kona, komin níu mánuði á leið er bara að vinna vinnuna sína. Líkaminn örmagna, með annan lítinn líkama innanborðs.“
Ólétt kona, komin níu mánuði á leið er bara að vinna vinnuna sína. Líkaminn örmagna, með annan lítinn líkama innanborðs. Aukið blóðmagn, síþreyta, bakverkir, flóð af hormónum. Brothætt ástand. En kerfinu er nákvæmlega sama um allt þetta. Það er vinna sem þarf að vinna og ef enginn vinnur hana þá vinnur enginn neitt. Lítið fóstur er bara að vinna vinnuna sína. Stækka og þroskast. Fá neglur og hár og taugakerfi. En mamma er stressuð. Og stressuð móðir á meðgöngu er nánast eins og reykjandi og drekkandi móðir á meðgöngu. Hefur neikvæð áhrif á líkamlegan og andlegan þroska barnsins, alla ævi. Barns sem er bara að reyna að vinna vinnuna sína. En svona er þetta. Lögreglan og Útlendingastofnun eru bara að vinna vinnuna sína. Sorrý fóstur. Svona er þetta. Allir bara að vinna vinnuna sína. Svekkjandi.
Eins og tveggja ára barnið. Það er bara að vinna vinnuna sína. Að vera barn. En í nótt, í stað þess að vera öruggt, sofandi heima hjá sér, eins og tveggja ára börn eiga að vera, var því skutlað upp á flugvöll og það flutt úr landi, af lögreglufólki sem var bara að vinna vinnuna sína, sem var bara að hlýða fyrirmælum starfsfólks Útlendingastofnunar, sem voru bara að vinna vinnuna sína, sem starfa samkvæmt lögum og reglugerðum Alþingis, þar sem fólk er bara að vinna vinnuna sína.
Þetta er engum að kenna. Stundum þarf bara að flytja óléttar konur, mennina þeirra og börn, úr landi, gegn vilja þeirra, um miðja nótt, eins og verið sé að fremja glæp. Einhver verður að gera þetta. Einhver verður að mæta í vinnuna og þvinga þetta fólk úr landi. Það verður að vinna þessa vinnu. Það verður að fylgja þessum lögum. Þetta fólk er bara að vinna vinnuna sína. Allir bara rosa duglegir að vinna vinnuna sína á meðan við höldum áfram að rústa lífi saklaus fólks en akkúrat núna ætla ég að mæta í vinnuna mína og hún felur í sér að ég segi fokk þetta. Til fjandans með kerfi sem þykist þjóna en er bara að troða á valdalausum innan þess og utan.Til helvítis með fólk sem mætir í vinnuna og brýtur á börnum og óléttum konum án þess að andmæla yfirboðurum sínum. Sorrý ef ég er dónalegur, en ég bara verð að vinna vinnuna mína og segja ykkur öllum að fara rakleiðis í rassgat, samviskulausa jakkafatapakk sem stendur í stafni en þykist samt ekkert geta gert. Stígvélasleikjurnar mega líka éta skít, þær sem framfylgja raddlausum skipunum ykkar fyrir utan kvennadeild Landspítalans um miðjar nætur, eins og síðasti hlekkurinn í einhverjum ömurlegum hvísluleik. Lögin sem þið felið ykkur á bak við munu ekki veita neitt skjól þegar þið þurfið að lokum að svara fyrir gjörðir ykkar.
Athugasemdir