Sjálfstæðismenn í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu urðu fyrir vonbrigðum með afstöðu Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, til ný samgöngusamnings ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Allir bæjarstjórar sveitarfélaganna sem eiga aðild að samningnum eru úr Sjálfstæðisflokki, fyrir utan Dag B. Eggertsson borgarstjóra.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Ráðherrar og bæjarstjórar skrifuðu undir samgöngusamninginn á dögunum. Samkomulagið nær til fimmtán ára og verða 52,2 milljarðar króna lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir.
Eyþór Arnalds hefur gagnrýnt samgöngusamninginn og sagt að samráð vegna hans hafi skort. Í samtali við Fréttablaðið hafna flestir flokksfélagar hans á sveitarstjórnarstiginu þessum málflutningi. Eyþór hafi verið boðaður á stóran samráðsfund vegna málsins 11. september en ekki mætt. Er sagt að eftir því hafi verið tekið meðal samflokksmanna.
Þá hefur Eyþór verið gagnrýninn á fjármögnun samningins, en af þeim 120 milljörðum sem áætlaðir eru í framkvæmdir mun ríkið leggja til 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og gert er ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi undir 60 milljörðum króna. Segja aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þær áhyggjur Eyþórs ótímabærar.
„Ekki er lengur deilt um samgönguvandann í höfuðborginni,“ segir Eyþór. „Nýundirritaður sáttmáli um framkvæmdir, ljósastýringu og umferðarmódel staðfestir að grípa þarf til aðgerða. En fjármögnunin vekur spurningar.“
Athugasemdir