Þjóðarsjóður er aftur kominn á dagskrá. Ef af honum verður fara milljarðar frá Landsvirkjun á hverju ári beint til erlendra sjóða. Í dag fer gjaldeyrir af orkusölu til ríkisins, styrkir þar krónuna og eykur fjárlagasvigrúm öllum til góða.
Hugmyndin að baki þjóðarsjóði er að geta gengið á helming forðans í neyð ef um það ríkir sátt á þingi hverju sinni. Sjóðurinn hættir að stækka þegar hann nær 260 milljörðum króna. Greiðsla til ríkissjóðs í efnahagshruni frá fullfjármögnuðum sjóði yrði því í kringum 130 milljarða króna. Gjaldeyrisforðinn, svo dæmi sé tekið, er margfalt stærri.
Ég skil hvers vegna hugmyndin hljómar skynsamlega. En það er ekki hlutverk ríkissjóðs að búa til sparibauk heldur að hlúa að uppbyggingu velferðarkerfis, innviða og atvinnuvega. Þeir fjármunir sem renna utan til sjóðsins frá Landsvirkjun myndu nýtast betur í innviðafjárfestingar og aukið svigrúm fjárlaga strax í dag. Það er þannig sem við tryggjum viðnámsþrótt og lífsgæði til frambúðar.
Seðlabankinn ber ábyrgð á gjaldeyrisforða og lífeyrissjóðirnir sjá um fjárfestingar. Hið opinbera á nú þegar drjúgan hluta af verðmætum þjóðarinnar: stóran hluta fjármálakerfisins, lífeyrissjóði, gjaldeyrisforða, hlutabréf í gegnum lífeyrissjóði, orkubúskap og fleira. Er ástæða til að bæta enn öðrum sjóðnum við? Ef það kemur efnahagsáfall þá erum við þar að auki með sveigjanlegan gjaldmiðil sem hámarkar atvinnustig og styður gjaldeyrisöflun með útflutningi.
Ef litið er til þjóða með virka sjóðsstýringu á erlendum gjaldeyri (e. sovereign wealth fund) þá eru þetta oftast olíuþjóðir sem vilja dreifa eggjum í fleiri körfur og tryggja að ósjálfbær auðlind nýtist framtíðarkynslóðum. Þetta á ekki við um okkur. Við flytjum út hugvit og auðlindir okkar eru endurnýjanlegar þótt þær séu auðvitað ekki óþrjótandi.
Það sem hefur gerst síðan þjóðarsjóður var síðast til umræðu er að sjóðsstjórar erlendis starfa í fjárfestingarumhverfi þar sem vextir eru víða komnir nærri eða niður fyrir núll. Fjármagnseigendur víðs vegar um norðurhagkerfin þurfa í mörgum tilfellum að sætta sig við neikvæða vexti vilji þeir örugga ávöxtun — þ.e.a.s. borga ríki eða banka fyrir fresta neyslu og fjárfestingu. Seðlabankar hafa búið þannig um hnútana til að draga úr sparnaði í örvæntingarfullri tilraun til að örva hagkerfið.
Forsendurnar fyrir þjóðarsjóði í virkri stýringu voru ekki til staðar. Vaxtaumhverfið og yfirvofandi heimskreppa rýra þær forsendur enn frekar. Að beina fjármunum frá fjárlögum í erlendan sjóð er í raun frestun á fjárfestingu í heimi sem hefur gengið mjög langt til að koma í veg fyrir slíkt með lágvaxtastefnu.
Geymum þessar hugmyndir og ræktum frekar garðinn okkar.
Athugasemdir