Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur þurft að sitja undir óvægnum og dónalegum persónulegum árásum, fullum af kvenfyrirlitningu, frá andstæðingum þess að Alþingi lögfesti þriðja orkupakkann, reglugerð Evrópusambandsins sem snýr að hluta af löggjöf sambandsins á orkumarkaði. Rósa Björk segir að skilaboð sem hún hafi fengið, bæði beint í tölvupóstum, í símtölum, skilaboðum á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum byggi á kvenfyrirlitningu og tilfinningahita en rökum sé ekki beitt.
Deilur hafa staðið um þriðja orkupakkann um margra mánaða skeið en sem kunnugt er var afgreiðslu þingsályktunartillögu um innleiðingu hans frestað undir þinglok síðasta vor, eftir málþóf þingmanna Miðflokksins, og samkomulag gert um að þing kæmi saman nú í sumar þar sem málið yrði rætt og afgreitt. Nú líður að því að sumarþing komi saman en samkvæmt samkomulagi verður það fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi. Ræða á mál tengd orkupakkanum á föstudeginum og greiða síðan atkvæði um málið mánudaginn 2. september.
Athugasemdir