Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka sem lét af störfum í vor, fékk 150 milljónir króna greiddar vegna starfsloka, að því fram kemur í árshlutareikningi bankans. Er sú upphæð á við tíföld árslaun starfsmanna að meðaltali.
Árið 2018 greiddi Arion banki tæpa 14,3 milljarða króna í laun og launatengd gjöld til starfsmanna samstæðunnar. Starfsmenn hennar voru í 928 stöðugildum að meðaltali á árinu og má því áætla að meðallaun starfsmanns á árinu hafi verið um 15,4 milljónir ásamt lífeyrisgreiðslum og öðrum launatengdum gjöldum. Er það tæplega tíu sinnum lægri upphæð en Höskuldur þáði við starfslok.
Stöðugildi samstæðunnar voru 904 í lok árs og fækkaði um 45 frá árinu á undan, en bankinn rekur fækkunina til útvistunar á seðlaveri, í samvinnu við hina stóru viðskiptabankana, og „hagræðingar í stafrænni vegferð bankans“. Hafði stöðugildum fækkað enn frekar í 880 um mitt ár 2019, alls um 69 frá árslokum 2017.
Benedikt Gíslason, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, tók við starfinu í júlí. Í kjölfarið var tilkynnt um að hagnaður bankans á öðrum ársfjórðuni hefði dregist saman um milljarð frá sama tímabili 2018. Arion banki var viðskiptabanki WOW air og hefur bankinn lýst 2,4 milljarða króna kröfu í þrotabú flugfélagsins.
Höskuldur starfaði hjá Arion banka í níu ár, en var þar á undan hjá Eimskipafélagi Íslands. „Bankinn er fjárhagslega sterkur með traustan grunnrekstur og vel í stakk búinn fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér. Ég tel þetta vera rétta tímann til að fela öðrum að taka við keflinu,“ sagði Höskuldur í tilkynningu til Kauphallar við brotthvarfið.
Athugasemdir