Vakur, samtök þjóðernissinna sem reka áróður gegn innflytjendum og fjölmenningu og beita sér fyrir hertri innflytjendastefnu, halda því fram að aðkast sem þrjár erlendar konur urðu fyrir við verslunarkjarna í Breiðholti hafi ekkert með hatur eða hatursglæpi að gera.
„Meiri hluti Íslendinga kærir sig ekki um íslamska menningu. Þeir hafa fullan rétt á því og þeir hafa fullan rétt á því að láta þá skoðun sína í ljós,“ segja samtökin á Facebook.
„Múslimar sem koma hingað sem „flóttamenn“ eða „hælisleitendur“ „í leit að alþjóðlegri vernd“ eiga ekki að sýna fyrirlitningu sína á Íslendingum með því að spígspora síðan um í búrkum. Við kærum okkur ekki um íslamska menningu á Íslandi.“
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til skoðunar hvort framinn hafi verið hatursglæpur þegar ráðist var á þrjá innflytjendur á mánudag.
Þórunn Ólafsdóttir, sem á sýrlenskan mann og þekkir til málsins, lýsti atvikum með eftirfarandi hætti á Facebook í gær: „Fjölskyldan var á leið út úr versluninni þegar kona veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en svo bætti hún í og hrækti á þau og gerði tilraunir til að rífa í hijab kvennanna, sem er þekkt aðferð hatursglæpamanna til að niðurlægja múslima.“
Vakur, samtök um evrópska menningu, hafa undanfarin ár flutt umdeilda fyrirlesara til landsins, rekið hræðsluáróður í anda kynþáttahyggju á Facebook og beint spjótum að hælisleitendum.
Sigurfreyr Jónasson, yfirlýstur fasisti, hefur umsjón með Facebook-síðu samtakanna. Hann kom við sögu í frétt Stundarinnar í vor vegna skipulagningar á kynningarfundi vegna námskeiðs í vopnaburði. Viðmælandi Stundarinnar sem hugðist sækja námskeiðið eftir að hafa fengið ábendingu um það frá Sigurfrey, sagðist vilja undirbúa sig ef til átaka kæmi milli Íslendinga og flóttamanna.
Í gær birti Vísir.is frétt þar sem rætt var við Eyrúnu Eyþórsdóttur, aðjúnkt í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi yfirmann hatursglæpadeildar lögreglu. Fjallað var um hatursglæpi almennt en einnig sérstaklega um atvikið í Breiðholti. Vakur brást við með færslu á Facebook þar sem tekin er afgerandi afstaða með þeim sem láta í ljós andúð á múslimum og íslamskri menningu. Af samhenginu má ráða að samtökin telji aðkastið sem múslimarnir urðu fyrir í Breiðholti hafa verið réttlætanlegt í ljósi klæðaburðar kvennanna. Um sé að ræða varnarviðbragð Íslendinga við eins konar innrás íslamskrar menningar.
26 manns hafa „lækað“ færslu Vakurs á Facebook en sams konar sjónarmið hafa birst víða í athugasemdakerfum fjölmiðla og á samfélagsmiðlum. „Það á fyrst og fremst að banna þessi höfuðföt,“ segir einn þeirra sem leggja orð í belg. „Mér finnst þetta bara í lagi eins og staðan er í dag,“ segir annar.
Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur starfað með flóttamönnum á Íslandi og í Grikklandi, sagði í pistli sínum á Facebook í gær að því miður væri ekki hægt að líta á ofbeldið sem innflytjendurnir urðu fyrir í Breiðholti sem einangrað tilvik.
„Samhengið er miklu, miklu stærra. Hatursorðræðu, rasisma og íslamófóbíu hefur vaxið fiskur um hrygg í samfélaginu okkar undanfarin misseri. Sú ógnvænlega þróun á sér margar skýringar og fjölmargir sem bera þar mikla ábyrgð – stjórnmálafólk, fjölmiðlar og fólkið sem veitir þessum hugmyndum brautargengi og fjöldinn sem lætur þær óáreittar. Hvernig samfélag viljum við eiginlega vera?“
Athugasemdir