Þingflokkur Vinstri grænna gerði bæði almennan og efnislegan fyrirvara við útlendingafrumvarpið sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í vor.
Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokksins, í samtali við Stundina.
„Við gerðum fyrirvara hvað varðar áform um að „styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar“, um málsmeðferð svokallaðra bersýnilega tilhæfulausra umsókna og loks um ákvæði er snúa að fjölskyldusameiningu,“ segir hún og vísar til 8. og 10. gr. frumvarpsins.
Eins og Stundin fjallaði um á dögunum myndi frumvarpið meðal annars veikja réttarstöðu þeirra hælisleitenda sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í löndum eins og Grikklandi. Mál tveggja slíkra fjölskyldna hafa vakið athygli í fjölmiðlum undanfarna daga.
Andés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram bókun með efnislegum athugasemdum þar sem fram kemur að margt í frumvarpinu þurfi vandlega yfirlegu í allsherjar- og menntamálanefnd, eins og t.d. málsmeðferð svokallaðra bersýnilega tilhæfulausra umsókna og ákvæði sem snúa að fjölskyldusameiningum flóttafólks.
Þá boðaði hann andstöðu við ákvæði sem snúa að því að „styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og árétta að henni skuli beitt þegar þess er nokkur kostur“, þ.e. sérstaklega 8. gr. í tengslum við frestun réttaráhrifa og 10. gr. sem þrengir þann hóp sem hlotið getur efnismeðferð ef sérstakar ástæður mæla með því. „Hætt er við að með þeim breytingum verði dregið úr mannúð hæliskerfisins í þágu skilvirkni og hagkvæmni,“ segir í bókun Andrésar.
Athugasemdir