Karlmenn eru rökhugsandi skynsemisverur, fæddir leiðtogar og stjórnendur en konur eru ofurseldar líkama sínum og tilfinningum, samkvæmt kenningum Aristótelesar og Platóns. Hugmyndir sem margir þykjast geta tekið undir í dag, þúsundum ára síðar. Að karlar séu hæfari til að stjórna en konur. Konur séu enda svo dramatískar tilfinningaverur. Það er nauðsynlegt að gera ákveðnar athugasemdir við svona alhæfandi útskýringar á kyni, enda vitum við að kyn ákveður ekki sjálfkrafa færni, hæfni og tækifæri. En hins vegar gerist það í orðræðunni, viðteknum hugmyndum og viðhorfum um kyn. Í þeim tilgangi er gagnlegt að velta upp hvers vegna þessi orðræða lifir enn góðu lífi, með því að skoða völd og áhrifavalda orðræðunnar. Hverjir fara með völdin og hvernig beita þeir áhrifum sínum?
Karlar í áhrifastöðum
Karlar fara með völdin á öllum helstu áhrifastöðum í samfélaginu. Forstjórar stærstu fyrirtækjanna eru í 90 prósent tilvika karlmenn, hæstaréttardómarar sömuleiðis og einnig eru 90 prósent stjórnenda peningasjóða karlar. Þá eru framkvæmdastjórar stærstu fyrirtækjanna í landinu í ríflega 70 prósentum tilvika karlar. Karlar eru að langstærstum hluta í forystu fyrirtækja, þótt hlutfall kvenna í stjórnum aukist í takti við stærð fyrirtækis.
Athugasemdir