Bjarni mótfallinn auðlindarentuskatti að norskri fyrirmynd
„Ráðherra er þeirrar skoðunar að sérstakir skattar eða aðrar álögur á fyrirtæki í orkuframleiðslu skili sér á endanum í hærra raforkuverði fyrir heimili og atvinnustarfsemi,“ segir í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að sérstakir skattar og aðrar álögur á fyrirtæki í orkuframleiðslu stuðli að hærra raforkuverði fyrir heimili og atvinnustarfsemi.
Sérstök skattlagning á orkufyrirtæki er því ekki til athugunar í ráðuneytinu.
Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.
Auðlindarentuskatturinn á raforkufyrirtæki í Noregi er 34,3 prósent af sérstökum skattstofni sem reiknaður er fyrir hverja virkjun fyrir sig og leggst á allar stærri virkjanir.
Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Oddnýjar frá 2017 má ætla að tekjur ríkissjóðs Íslands af auðlindarentuskatti að norskri fyrirmynd væru um 7 milljarðar króna. Fram kemur í svari Bjarna að hann hafi engin áform um að hefja vinnu við mótun slíkrar skattheimtu.
Athugasemdir