Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, óskaði eftir aðgangi að lokuðum Facebook-hópi kvenna til að fylgjast með umræðum þeirra og jafnvel gera þær opinberar.
Í hópnum, sem heitir „Karlar gera merkilega hluti“, er hent gaman að fréttaflutningi þar sem körlum er hampað á kostnað kvenna eða ófréttnæmum gjörðum karlmanna er slegið upp í fyrirsögn. Hópurinn er læstur og svara þarf spurningunni „Af hverju viltu gerast meðlimur?“ áður en stjórnendur hans taka afstöðu til umsóknarinnar.
Snorri sótti um aðgang 22. júní síðastliðinn og svaraði spurningunni á þessa leið: „Af því að ég hef mikinn áhuga á að sjá og lesa og jafnframt gera opinbert það sem hér fer fram og hvað hér er um rætt.“
Í umræðum kvennanna í hópnum um umsókn Snorra er því velt upp hvað hann ætli sér með upplýsingarnar og hvort hann sé í formlegum erindagjörðum sem lögreglumaður. Talað er um að atvik af þessu tagi séu ekki líkleg til þess að auka traust kvenna þegar kemur að því að leita sér aðstoðar lögreglu. Af gefnu tilefni skal tekið fram að Stundin fékk leyfi frá stjórnendum hópsins fyrir því að greina frá því sem þarna er sagt.
Ráðaleysi og uppgjöf í jafnréttismálum lögreglu
Í síðasta tölublaði Stundarinnar kom fram að lögbundin jafnréttisverkefni séu vanrækt hjá lögreglunni. Vitnað er í nýlega grein Gyðu Margrétar Pétursdóttur, dósents í kynjafræði, og Kristínar Önnu Hjálmarsdóttur kynjafræðings sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, en þar kemur fram að greina megi ráðaleysi og uppgjöf meðal lykilstarfsfólks lögreglu í jafnréttismálum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki sett sér jafnréttisáætlun og aðgerðabundna framkvæmdaáætlun í samræmi við ákvæði jafnréttislaga og ábendingar Jafnréttisstofu. Þá hefur gerð áhættumats og heilsuverndaráætlunar, samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum, ekki komist til framkvæmda innan embættisins.
Athugasemdir