„Ég fór bara undir gröfuna. Það þýðir ekkert annað,“ segir Strandamaðurinn og Drangamaðurinn Elías Svavar Kristinsson, sem ákvað í gær að standa í vegi fyrir vegaframkvæmdum í Ingólfsfirði á Ströndum á vegum verktakafyrirtækisins Vesturverks. Framkvæmdirnar eru fyrsti liður í gerð Hvalárvirkjunar, sem mun hafa „óveruleg til talsvert neikvæð“ umhverfisáhrif á svæðinu, meðal annars þær afleiðingar að fossar rýrna verulega eða hverfa nánast.
Elías segist hafa orðið reiður, vegna þess sem hann álítur ósvífni virkjanafyrirtækisins, að hefja framkvæmdir strax eftir að ný kæra barst frá landeigendum nálægt virkjanasvæðinu. „Ég náttúrulega sagði honum að hætta þessu. Ég sagði: Ég fer ekkert undan skóflunni. Þú mátt alveg ráða því hvað það tekur langan tíma.“
Hann harmar þó að viðmótsþýður vegagerðarmaður hafi orðið fyrir. „Hann tók þessu af ótrúlega mikilli ró. Hann sagði: Ég ætla mér ekkert að vinna í nótt. Þannig að ég er að hætta og þá er kannski best að ég hætti bara. Hann var nú kurteis karlgreyið, en ég var kannski aðeins æstari.“
Forsenda virkjanaframkvæmda
Fyrirtækið Vesturverk rær öllum árum að því að hefja virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði, kenndar við Hvalá. Til þess hlaut félagið framkvæmdaleyfi vegna vegavinnu, í samvinnu við Vegagerðina. „Samningur um veghaldið er liður í undirbúningi virkjunar Hvalár og gildir hann til fimm ára,“ sagði í tilkynningu félagsins 20. júní síðastliðinn.
Eftir að landeigendur í Drangavík, norðan við virkjunarsvæðið, kærðu deiliskipulag og framkvæmdaleyfi vegna virkjunarinnar í vikubyrjun á þeim forsendum að þeir væru í reynd eigendur hluta virkjanasvæðisins, hóf Vesturverk engu að síður framkvæmdir við veginn í aðdraganda undirbúnings fyrir rannsóknarboranir og tilheyrandi þungaumferð um svæðið.
Vill vernda víðernin
Ástæðan fyrir því að Elías leggst gegn framkvæmdunum með svo áþreifanlegum hætti er að hann telur að óafturkræfur skaði verði af þeim fyrir ósnortin víðerni og landslag sem hafi gildi fyrir almenning til framtíðar. Þær áhyggjur eru að hluta undirbyggðar í mati Skipulagsstofnunar, sem segir framkvæmdirnar hafa „óveruleg til talsvert neikvæð“ umhverfisáhrif, en sveitarstjórn Árneshrepps styður framkvæmdirnar og fengu virkjanasinnar nauma kosningu í sveitarstjórnarkosningum í fyrra.
Elías segir að nýhafnar vegaframkvæmdir muni gerbreyta Ingólfsfirði og Ófeigsfirði.
„Hann verður ristur á hol.“
„Hann verður ristur á hol. Hann verður skorinn í sundur, bæði sunnan megin og yfir eyrarnar, og á ská niður,“ segir hann um Ingólfsfjörð. „Þar verður allt sprengt í tætlur. Þetta eru hryðjuverk. Þetta ætla þeir að gera fyrir rannsóknarvinnu. Þeir ætla sér að eyðileggja eins mikið og þeir geta til þess að segja: „Það er búið að skemma þetta.“ Það verður bara að koma í veg fyrir þetta. Ég veit ekki hvernig á að gera það, en það verður að gera það.“
Núverandi vegur er í reynd slóði sem liggur með landslaginu og að hluta rétt ofan við flæðarmálið í fjörunni, en hann var lagður á áttunda áratugnum.
„Hann er barn síns tíma. Það má alveg slétta veginn, en við viljum ekki vera að breikka hann fyrir búkollur og svoleiðis.“
Lofað bættum innviðum
Elías ólst upp á Dröngum, en foreldrar hans fluttu þangað frá Seljanesi, milli Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar, árið 1953. Foreldra hans brugðu síðar búi á sjöunda áratugnum, en alla tíð síðan hefur Elías komið heim, milli þess sem hann hefur vetursetu sunnar, undanfarið á Akranesi, en senn í Garðabæ. Á sumrin rær hann til fiskjar á smábát og gistir í bátnum við Norðurfjörð, milli þess sem hann dvelur á uppeldisstað sínum Dröngum, rétt norðan við Drangaskörð.
Framkvæmdir við Hvalárvrkjun munu valda því að eitt stærsta ósnortna víðerni Íslands og Evrópu skerðist verulega. Samhliða því munu nokkrir fossar rýrna verulega. Sveitarfélagið er klofið í afstöðu sinni til framkvæmdanna, en sveitarstjórinn styður þær og telur að Árneshreppur muni hagnast töluvert á framkvæmdum og fasteignagjöldum í kjölfarið. Auk þess hefur verktakafyrirtækið Vesturverk boðað fjárframlög til framkvæmda við skólahúsnæði og kynnt að líklegur hluti afleiðinga virkjanaframkvæmdanna verði lagning ljósleiðara, hitaveitu og þriggja fasa rafmagns í sveitina.
Tekist á um almannahagsmuni
Elías telur að fáir á svæðinu muni hagnast á virkjanaframkvæmdunum, auk þess sem almenningur muni þurfa að borga fyrir tengivirki og lagningu raflína. Tekjur sveitarfélagsins af fasteignagjöldum vegna stöðvarhússins muni leiða til þess að framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga minnki á móti. Og störfin verði fá, það verði fyrst og fremst erlendir starfsmenn starfsmannaleigu að vinna við framkvæmdirnar á heiðinni.
Sjálfur hefði hann geta fengið bita af kökunni. „Okkur var boðið í þetta partý. Við sögðum bara nei, takk. Þeir vildu fá vatn á svæðinu hjá okkur líka. Vesturverk bað um viðræður við okkur. Við bara önsuðum ekki. Við stefnum að því að friða Drangana. Þú gerir ekki allt fyrir peninga,“ segir Elías, sem telur almannahagsmunum best borgið með því að vernda víðernin fyrir framkvæmdum, jafnvel þótt vegir haldist frumstæðir.
„Þetta er sjarminn,“ segir hann, fljótandi á trillu úti fyrir Trékyllisvík með rúmlega 700 kíló af afla dagsins innanborðs.
Samkvæmt heimildir Stundarinnar er í kvöld verið að flytja stærri gröfu norður eftir Strandavegi í átt að Ingólfsfirði.
Athugasemdir