Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki sett sér jafnréttisáætlun og aðgerðabundna framkvæmdaáætlun í samræmi við ákvæði jafnréttislaga og ábendingar Jafnréttisstofu. Þá hefur gerð áhættumats og heilsuverndaráætlunar, samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum, ekki komist til framkvæmda innan embættisins. Þar hefur heldur ekki tíðkast að eyrnamerkja fjármagn til jafnréttisvinnu.
Þetta kemur fram í grein Gyðu Margrétar Pétursdóttur, dósents í kynjafræði, og Kristínar Önnu Hjálmarsdóttur kynjafræðings sem birtist í nýútkomnu vorhefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. Þar er fjallað um niðurstöður aðgerðarannsóknar sem framkvæmd var hjá lögregluembættinu.
Fram kemur að greina megi ráðaleysi og uppgjöf meðal lykilstarfsfólks lögreglu í jafnréttismálum og haft er eftir Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra að það sé „ekki hægt“ að breyta viðhorfum til kynferðislegrar áreitni innan lögreglunnar: „Þú breytir ekki viðhorfi í 85% karlamenningu, það er bara ekki hægt því þeir sem eru á annarri skoðun, þeir bara eru undir.“
Athugasemdir