Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sá sig knúinn til að mæta í ræðustól Alþingis nú fyrir skemmstu til að verja Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra og forsætisráðherra, og ríkisstjórn Jóhönnu og hans. Gerði Steingrímur það til að bregðast við málflutningi Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, en Steingrímur taldi hana hafa farið með ósannindi í ræðu sinni.
„Í kjölfarið á hruninu var talin ástæða til að seilast í vasa þeirra sem höllustum fæti stóðu í samfélaginu,“ sagði Inga í umræðum um félagslega aðstoð og almannatryggingar, en þar er rætt um að króna á móti krónu skerðing á ákveðnum greiðslum til öryrkja, vegna vinnutekna, verði færð niður í krónu á móti 65 aurum. Ingi hélt því fram að það hefði verið í tíð vinstri stjórnarinnar sem að króna á móti krónu skerðingin á greiðslum til öryrkja var lögð á.
Sagði Jóhönnu eiga betra skilið frá kynsystur sinni
Þessu vildi Steingrímur ekki una, vék úr stóli forseta og kallaði til varaforseta og óskaði eftir því að veita andsvar við ræðu Ingu. „Þó ég sé hér forseti og blandi mér ógjarnan í pólitískar umræður þá sit ég ekki þegjandi undir rangfærslum og óhróðri af því tagi sem háttvirtur þingmaður Inga Sæland hafði um ríkisstjórn okkar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er rangt að sú ríksstjórn hafi tekið upp krónu á móti krónu tengingu. Það sem rétt er er að Jóhanna Sigurðardóttir, sem félagsmálaráðherra, kom á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu og það þótti þá stórkostleg réttarbót og þar var verið að bæta kjör þess hóps sem lakast var settur og fáir virðast muna eftir í dag,“ sagði Steingrímur og var mjög mikið niðri fyrir.
Steingrímur sagði það vissulega rétt að umrædd uppbót hefði verið tekjutengd en að sama skapi hefði hún verið lögð á ofan á aðrar almennar greiðslur kerfisins til hagsbóta fyrir þá sem hefðu ellegar verið á strípuðum bótum. Bætti Steingrímur því við að hann væri orðinn ansi hugsi yfir því hvert samtök öryrkja og samtök aldraðra væru komin þegar nánast enginn talaði um þann hóp félagsmannanna sem lakast væri settur og ekkert hefði annað en strípaðar greiðslurnar.
„Á meðan ég er hér á þingi og hef málfrelsi þá sit ég ekki þegjandi undir svona löguðu. Jóhanna Sigurðardóttir, einn merkasti félagsmálaráðherrra þessarar þjóðar á annað og betra skilið frá kynsystur sínum,“ endaði Steingrímur ræðu sína og gerði það af miklum þunga.
Athugasemdir