Á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 yfirgáfu 317 börn, sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd, landið í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda þess efnis að synja þeim um efnismeðferð eða synja þeim um vernd í kjölfar efnislegrar meðferðar.
Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata. „Mikill meirihluti barnanna“ er sagður hafa verið í fylgd með foreldrum sínum.
Jón Þór spurði hvort stjórnvöld eða stofnanir hefðu upplýsingar um afdrif þessara barna til að meta hvort brottvísun hefði verið barni fyrir bestu. Svo er ekki. „Frekari eftirfylgni með börnum eftir að þau hafa verið flutt frá landinu fellur utan valdsviðs íslenskra stjórnvalda,“ segir í svari ráðherra.
Athugasemdir