Stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð í Reykjavík tapaði 2,3 milljónum króna árið 2018, þrátt fyrir að hafa ekki boðið fram í kosningum til borgarstjórnar um vorið. Einu tekjur flokksins voru framlög Reykjavíkurborgar upp á tæpa 1,7 milljón króna.
Þetta kemur fram í endurskoðuðum ársreikningi flokksins sem Ríkisendurskoðun hefur birt. Þar kemur fram að rekstargjöld flokksins á árinu hafi verið 3,9 milljónir króna. Þar sem einu tekjur flokksins voru framlagið frá Reykjavíkurborg nam tap á rekstrinum tæpum 2,3 milljónum króna. Eigið fé flokksins í Reykjavík var 2,1 milljón króna í lok árs 2018.
Björt Ólafsdóttir, formaður flokksins, tilkynnti í mars 2018 að hann hyggðist ekki bjóða fram í kosningum til borgarstjórnar. Flokkurinn var þá með tvo borgarfulltrúa, Sigurð Björn Blöndal og Elsu Hrafnhildi Yeoman, sem störfuðu með meirihluta borgarstjórnar. „Við sitjum bara hjá eina umferð,“ sagði Björt í samtali við Fréttablaðið.
Í ársreikningnum kemur fram að flokkurinn hafi ekki fengið framlag frá ríkissjóði árið 2018. Flokkurinn fékk enga þingmenn kjörna í Alþingiskosningum haustið 2017 eftir að hafa slitið ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn vegna trúnaðarbrests og leyndar í máli er varðaði uppreist æru barnaníðings.
Athugasemdir