Alþýðusamband Íslands hefur áhyggjur af orkustefnu og harðri markaðshyggju Evrópusambandsins en ekki neinum sérstökum ákvæðum í gerðum þriðja orkupakkans. „Það þarf að vinda ofan af markaðshyggjuhugmyndum varðandi orkuna og á það vorum við að benda,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, aðspurð um afstöðu sambandsins til innleiðingar þriðja orkupakkans.
Athygli vakti þegar ASÍ lagðist með afgerandi hætti gegn innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt þann 29. apríl síðastliðinn. Í umsögn sambandsins er fjallað með mjög almennum hætti um raforkumál og markaðsvæðingu. Fram kemur að „of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða“ og að það sé „feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt“. ASÍ vísar sérstaklega til þess að með þriðju raforkutilskipuninni „sé gengið lengra í að stuðla að virkum raforkumarkaði með því að tryggja aðskilnað á eignarhaldi í flutningsstarfsemi frá markaðsaðilum“ en getur þess ekki að Íslandi hefur verið veitt undanþága frá þeirri grein tilskipunarinnar sem snýst um þetta (sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017).
Stundin sendi ASÍ fyrirspurn í gær um hvað það væri helst í orkupakkagerðunum sem sambandið hefði áhyggjur af; hvaða ákvæði, sem Ísland hefði ekki fengið undanþágu frá, væru að mati ASÍ til þess fallin að útvíkka eða auka markaðsvæðingu orkumála á Íslandi frá því sem nú er.
„Umsögn okkar til þingsins segir í raun allt sem segja þarf, þar erum við að gagnrýna þær forsendur sem allir orkupakkarnir (1-5) hvíla í raun á og er farið vel yfir í greinargerð með þingsályktunartillögunni að almenn sé litið á orku eins og hverja aðra vöru sem samkeppnislögmál gilda um og orkupakki 3 sé hluti af þeirri vegferð að vinnsla og sala raforku skuli vera rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli,“ segir í svörum Drífu Snædal.
Stundin spurði aftur hvort það væru þá engin sérstök ákvæði eða atriði í þriðja orkupakkanum sem ASÍ hefði áhyggur af og skýrðu afstöðu þess. Jafnframt var Drífa spurð hvort ASÍ teldi æskilegt að Ísland reyndi að semja um að vera undanþegið allri orkulöggjöf ESB.
„Við vekjum athygli á því að það þarf að ræða þetta allt í samhengi, sem sagt orkustefnu ESB í heild sinni,“ svarar Drífa. „Það þarf að vinda ofan af markaðshyggjuhugmyndum varðandi orkuna og á það vorum við að benda. Við lítum því á málið í stærra samhengi. Ég persónulega er sannfærð um að ESB verður að breyta um kúrs í málum er varða grunnþjónustu svo sem orku og vandræði sem endurspeglast í minni tiltrú fólks á batteríinu (sbr. niðurstöður kosninganna um helgina) spretta úr blindri trú á að markaðurinn eigi að leysa öll vandamál, þar með talin grunnþarfir og velferð.“
Athugasemdir