Það er útbreiddur misskilningur að nú sé orðið nógu hlýtt til að fara úlpulaus út úr húsi. Við erum bara örfáar kuldaskræfur eftir í strætó á morgnana sem erum enn í úlpunum okkar og okkur fækkar dag frá degi.
Úlpur samferðafólks míns eiga það flestar sameiginlegt að vera frá sömu tveimur merkjunum, 66°Norður og Cintamani, prýddar ljósbrúnni loðbryddingu á hettunni.
Fyrir nokkrum vikum þegar aðeins kaldara var í veðri varð ég fyrir sérstökum hughrifum í strætóferð morgunsins. Ég settist aftarlega og smám saman fylltust öll sætin fyrir framan mig af farþegum í úlpum með nákvæmlega eins loðbryddingu. Skyndilega var vagninn fullur af loðfeldum sem bærðust blíðlega í hitauppstreyminu frá ofnunum og fuku til og frá í vindhviðunum þegar hurðirnar opnuðust á stoppistöðvunum. Þessi stöðuga hreyfing gerði það að verkum að þeir virtust næstum því vera lifandi, eins og hópur af spenntum gæludýrum með eigendum sínum í strætóferð. Mér varð hugsað til upprunalegu eigenda loðfeldanna og fór að velta fyrir mér hvaða dýr þetta væru eiginlega og hvaðan þau kæmu.
Við fyrsta gúgl kom í ljós að báðir framleiðendurnir segja að feldurinn á hettunum sé af þvottabjörnum. Þvottabjörnum? Kaupa 66°Norður og Cintamani virkilega skinn af amerískum þvottabjörnum? Getur verið að þeir séu ræktaðir á loðdýrabúum?
Ég gat ekki hætt að hugsa um þvottabirnina í strætó og ákvað að rannsaka málið. Í ljós kom að þeir eru í raun alls engir þvottabirnir og ekkert skyldir þeim. Þetta eru svokallaðir þvottabjarnarhundar sem eru fjarskyldir ættingjar bestu vina okkar, hundanna. Það vill bara svo til að þeir eru einstaklega líkir þvottabjörnum í útliti.
Í vörulýsingum 66°Norður er tekið fram að ,,þvottabjarnarskinnið” sé VET vottað og komi frá Sagafurs í Finnlandi. Á vef Sagafurs má finna snyrtilegar myndir af tómum búrum og yfirlýsingar um djúpa umhyggju fyrir dýrunum sem í þeim dvelja en sjást þó ekki á myndunum.
Vilji maður lesa sér frekar til um dýravelferðina kemur hins vegar upp 404 villa, síða finnst ekki. Annað sem finnst ekki á vefnum eru upplýsingar um þvottabjarnarhundana sem eru ræktaðir þar í stórum stíl. Þetta dýr sem ekki má nefna á nafn kýs Sagafurs að kalla finnraccoon. Það er ekki raunverulegt heiti á neinni þekktri dýrategund.
Þegar ég skoðaði vörulýsingarnar hjá Cintamani læddist strax að mér illur grunur. Þar eru líka þvottabjarnarskinn á úlpunum en engar upplýsingar um vottun eða upprunaland eru gefnar upp.
Ég hringdi á skrifstofu Cintamani undir fölsku flaggi til að grennslast fyrir um þetta. Þegar ég spurði hvort skinnin væru virkilega af þvottabjörnum fór sá sem svaraði í símann að spyrja hönnuðinn og kom til baka með þau svör að þetta væru líklega ekki amerískir þvottabirnir heldur eitthvað sem kæmi frá Asíu og héti raccoon. Ég þráspurði hvort skinnin kæmu frá Kína og að lokum fékk ég svarið „já, líklega.“
Nú skal því haldið til haga að í Kína gilda engin lög um dýravernd eða dýravelferð. Það hafa náðst upptökur af loðdýrabúum í Kína þar sem þvottabjarnarhundar eru fláðir lifandi.
Fyrst varð ég furðu lostin yfir því að þessi fyrirtæki væru viljandi að láta líta út fyrir það að þau noti skinn af þvottabjörnum, ræktuðum í búrum í verksmiðjubúum. Þessum eldkláru, handóðu og forvitnu dýrum sem geta leyst flóknar þrautir og eru talin gáfaðri og minnugri en hundar. Lítil krútt sem flestir þekkja úr kvikmyndum, teiknimyndum og barnabókum. Af hverju í ósköpunum?
Er ástæðan sú að þau eru svo úr tengslum við framleiðsluna að þau vita hreinlega ekki af hvaða dýrategund feldurinn er sem þau kaupa í stórum stíl? Ef svo er þá getur varla verið verið að fulltrúar þeirra hafi kannað aðstæður ræktunarinnar eða að þeim sé á einhvern hátt umhugað um meinta velferð dýranna.
Eða er ástæðan kannski sú að það er ekkert sérlega sniðugt sölutrix þegar þú ert að selja loðfeldi að nota orðið hundur og vekja þannig hugrenningartengsl við besta vin mannsins.
Vegna þess að allir vita að það væri óverjandi grimmd og villmennska að loka hund inni í litlu búri þar sem hann ætti að eyða ævinni í ólýsanlegri angist, eymd og einsemd.
Athugasemdir