Við vorum að fá nýja hagspá og hún er verri en hagspáin sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á. Það þarf því að gera breytingar áður en hún kemur aftur inn í þingið til annarrar umræðu og samþykktar.
Fjármálaáætlunin eins og hún var þegar fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir henni, var með góðum afgangi af ríkissjóði í samræmi við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar stjórnarþingmenn og jafnvel einstakir ráðherrar hafa tjáð sig um viðbrögð við niðursveiflunni, á Alþingi og í fjölmiðlum, þá nefna þau gjarnan afganginn, hann sé nú ríflegur eða rétt um 30 milljarðar og það megi alltaf ganga á hann.
En málið er ekki svona einfalt. Fjármálastefna ríkisstjórnar er lögð fram aðeins einu sinni á hverju kjörtímabili og gildir í fimm ár eða þar til ný ríkisstjórn setur fram nýja stefnu. Fjármálastefnan er eitt mikilvægasta þingskjal kjörtímabilsins. Í henni felst skuldbinding um hvernig haga eigi tekju- og útgjaldastefnu stjórnvalda. Og ströng skilyrði eru fyrir endurskoðun hennar. Hana má aðeins endurskoða ef grundvallarforsendur hennar bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum.
Ríkisstjórnin brýtur því lög ef hún ætlar að ganga á afganginn við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hún þarf annaðhvort að breyta lögunum áður en hún ákveður að ganga á afganginn – eða bregðast við á tekju- og útgjaldahlið ríkisfjármála. Annaðhvort þarf að skera niður eða hækka skatta.
Ég skora á ríkisstjórnina og stjórnarþingmenn að leggja til auðlindagjöld og auðlegðarskatta frekar en að láta þau sem helst þurfa á þjónustu og stuðningi ríkisins að halda, svo sem sjúklinga, aldraða og barnafjölskyldur, bera niðursveifluna. Ég skora á þau stéttarfélög sem hafa gert kjarasamninga og þau sem eru í samningaviðræðum að krefjast þess að velferðarkerfið verið ekki látið taka niðursveifluna.
Athugasemdir