„Í janúar síðastliðnum báðu Ungir jafnaðarmenn Ágúst Ólaf Ágústsson formlega um að segja af sér embætti sínu, vegna kynferðislegrar áreitni. Slík hegðun samrýmist ekki femíniskum gildum hreyfingarinnar.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ungum jafnaðarmönnum á Facebook-síðu hreyfingarinnar. Vísað er sérstaklega til háttsemi stjórnmálamanna í yfirlýsingunni en einnig til jákvæðra breytinga í flokki Samfylkingarinnar vegna kröfu # metoo byltingarinnar.
Ætla mætti að þannig sé því einnig farið með kynferðisofbeldi á börnum, kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi. Það mátist afar illa við feminísk gildi Ungra jafnaðarmanna. Ofbeldi á konum og börnum samrýmist líklega ekki yfirlýstum gildum og stefnu jafnaðarmanna Samfylkingarinnar yfir höfuð.
Þann 3. maí 2018 birtist í Stundinni opið bréf til dómsmálaráðherra í kjölfar #metoo yfirlýsingar frá hópi 600 kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum og/eða innan fjölskyldu.
Í yfirlýsingu metoo hópsins er megináhersla lögð á ósk um að konum sé trúað þegar þær greina frá ofbeldi og auk þess er óskað eftir stuðningi samfélagsins við að skerpa á nokkrum veigamiklum atriðum, þar á meðal: „Að dómsvaldið, sýslumaður og sýslumannsfulltrúar, sáttafulltrúar, sérfræðingar í málefnum barna og aðrir sem koma að ákvörðunum um forsjá og umgengni fylgi þeim áherslum sem sammælst hefur verið um í lögum.“
Síðan þá hefur Stundin fjallað um hvernig sýslumaður horfir kerfisbundið framhjá gögnum um kynferðisbrot og heimilisofbeldi þegar teknar eru ákvarðarnir um umgengni og dagsektir og hvernig mæður eru látnar gjalda fyrir að greina frá ofbeldi
Þrátt fyrir allt þetta hefur Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, fundið sig knúna til að stíga fram á opinberum vettvangi og gera lítið úr þeirri ógn sem steðjar að börnum og mæðrum sem eru þolendur heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis.
„Þegar börn fá ekki að hitta annað foreldri sitt, því stundum er það bara tálmun. Það er í minnihluta tilvika þar sem um er að ræða einhverja raunverulega hættu. Þá hvað? Barnið verður bara fyrir rofi þarna og það er mjög alvarlegt og þetta er skaði sem verður ekkert tekinn til baka,“ segir hún.
Í greiningu sinni á ástandinu hjá fjölskyldusviði sýslumanns gerir hún tálmun á umgengni og skort á fjárframlögum til sviðsins að helstu ógninni sem steðji að börnum í umgengnismálum. Það gefur hins vegar auga leið að sýslumaður sem horfir kerfisbundið framhjá gögnum um kynferðisbrot og heimilisofbeldi heldur enga skrá um ofbeldishættu.
Helga Vala hefur engar forsendur til að fullyrða um fjölda tilvika eða meta hvar raunveruleg hætta steðjar að börnum í umgengnismálum. Til að rökstyðja greiningu sína á vanda sifjadeildar sýslumanns heldur hún á lofti hugmyndinni um „(tengsla)rof“ barns við föður vegna tálmunar á umgengni sem er hugtak sem tilheyrir einni mestu kvenhaturs og falsvísindakenningu seinni tíma um PA(S) (e. Parental Alienation (Syndrome). Foreldrafirringu mæðra sem í vitfirrtri hefnigirni vilja ná sér niðri á barnsfeðrum sínum, innræta börnum sínum að ljúga upp á þá kynferðisofbeldi og tálma umgengni.
Í þessu samhengi er ágætt að gera sér grein fyrir því að fátt veldur jafn miklu rofi á heilbrigðum tilfinningatengslum barns við foreldri og kynferðisofbeldi foreldris á barni. Kynferðisofbeldi er skaði sem verður ekki tekinn til baka.
Viðhorf Helgu Völu kemur þeim ekki á óvart sem fylgst hafa með hennar málflutningi um umgengnismál síðustu árin. Hún hefur sjálf gefið þær skýringar í krafti reynslu sinnar sem starfandi lögmaður að ástæður þess að foreldri uppfyllir ekki samninga um umgengni og sé þar með að beita barn sitt ofbeldi, séu langoftast einhver særindi og andúð þess foreldris í garð hins. Sem sagt að brýnasta verkefni fjölskyldusviðs sýslumanns sé að bjarga börnum frá mæðrum með takmarkaðan tilfinningaþroska.
Helga Vala hefur beitt sér fyrir því að umgengnistálmanir verði gerðar refsiverðar og hefur þar með tekið sér stöðu með stjórnmálamönnum á borð við Brynjar Níelsson þingmann Sjálfstæðisflokksins - að því er virðist þvert gegn afstöðu Samfylkingarinnar til málsins. Í bakþankapistli á Vísi.is þann 3. apríl 2017 sagði Helga Vala meðal annars: „Ég fagna framkomnu frumvarpi um að tálmun á umgengni verði gerð refsiverð en óska þess einnig að Alþingi skoði hvernig meðferð þessara mála er og lagi til, svo þessi kerfislægi vandi bitni ekki svona harkalega á börnum landsins.“
Þann 8. október 2018 sendu Aktívistar gegn nauðgunarmenningu (AGN) öllum þingmönnum Alþingis tölvupóst með yfirlýsingu þar sem þess er krafist að kjörnir þingmenn taki skýra afstöðu gegn hverskyns ofbeldi á börnum og konum ellegar geri afstöðu sína skýra. Í yfirlýsingunni sem 156 konur skrifuðu undir voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýndir harðlega fyrir að hafa lagt öðru sinni fram frumvarp til refsilöggjafar í umgengnismálum.
Flokkur Samfylkingarinnar brást við yfirlýsingunni með því að senda greinargott og ítarlegt svar. Samfylkingin hefur þegar lagt til að þolendur fái gjafsókn í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum. Í svari flokksins til AGN segir meðal annars:
Barnavernd og sýslumenn virðast illa ráða við verkefni sín þegar kemur að þessum grundvallarréttindum barna. Þegar foreldrar eru ósammála um framkvæmd umgengni þurfa stjórnvöld að koma barni til aðstoðar, rannsaka aðstæður þess og meta með ígrunduðum hætti hvað er barni fyrir bestu. Barni er fyrir bestu að vera í góðu sambandi við báða foreldra sína en það má þó aldrei bitna á öryggi barnsins eða vernd þess (...) Umræða um viðurlög gegn foreldrum er ótímabær.
Þannig liggur fyrir að þau sjónarmið sem Helga Vala hefur lýst eru á skjön við yfirlýsta afstöðu flokksins. Hvort afstaða Helgu Völu til frumvarps Sjálfstæðismanna um refsingar vegna tálmana hefur breyst er á huldu, eitthvað sem hún verður að svara sjálf.
Án þess að nokkuð sé sagt um siðferði einstaka þingmanna Samfylkingarinnar eða innanflokksákvarðanir, hver situr áfram á þingi og hver ekki, hljótum við að geta verið sammála um að stjórnvöld beri ábyrgð á því að koma ekki illa fram við börn.
Orðræða og málflutningur Helgu Völu er ískyggilega óábyrgur gagnvart börnum og konum sem búa við aukna ofbeldishættu vegna ákvarðana ríkisvaldsins. Ég hvet hana til að kynna sér stjórnsýsluframkvæmd sýslumannsembætta í þaula og endurskoða afstöðu sína. Ef ekki vona ég að forysta Samfylkingarinnar sendi skýr skilaboð um hvar flokkurinn raunverulega stendur.
Athugasemdir