Orðustúss er stundum skrýtið. Árið 1936 hafði íslenska ríkisstjórnin ákveðið að veita nokkrum ítölskum embættismönnum fálkaorðu íslenska ríkisins. Háttsettar silkihúfur í stjórnkerfinu voru og eru líklega enn áskrifendur að heiðursmerkjaglingri bæði í eigin löndum og annarra, því punt þykir að slíku í fínum veislum þar sem menn bera saman orður sínar.
Ég var í dag að skoða fálkaorðutilnefningar þessa tiltekna árs, en þá fengu orðu af ýmsum stigum til dæmis þeir Íslendingarnir Jón Helgason biskup, Friðrik Friðriksson stofnandi KFUM, Sigurður Magnússon yfirlæknir á Vífilsstöðum, Oddur Hjálmarsson prentsmiðjueigandi á Akureyri, vélstjórinn Guðbjartur Guðbjartsson, skipstjórinn Sighvatur Bjarnason, bændurnir Eggert Finnsson og Stefán Jónsson.
Tæplega þrír tugir íslenskra karlmanna fengu fálkaorðu og tvær konur, Halldóra Ólafs kaupkona og Þuríður Bárðardóttir ljósmóðir.
Þó nokkuð af útlendingum fékk líka orðu og höfðu sumir lítil eða engin tengsl haft við Ísland, heldur var einfaldlega fylgt siðvenjum um orðuveitingar til embættismanna. Þar á meðal hafði ríkisstjórn og/eða sú nefnd sem þá sá um orðuveitingar valið sex Ítali sem skyldu fá orðu.
En í bréfi sem Sveinn Björnsson sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn skrifaði Jóni Sveinbjörnssyni konungsritara snemma í september 1936 kom í ljós að ríkisstjórnin, undir forystu Hermanns Jónassonar var líka með sjöunda Ítalann í huga:
„Var jafnframt gert ráð fyrir því,“ skrifaði Sveinn til Jóns, „að núverandi utanríkisráðherra Ítalíu fengi stórkross, ef fram kæmi við rannsókn underhanden [svo lítið bæri á] að honum mundi þykja vænt um slíkt“.
Þetta var formlegt bréf sem sendiherrann Sveinn skrifaði konungsritaranum Jóni, en Kristján kóngur IX veitti fálkaorðuna þá formlega og því þurfti atbeina hans við orðuveitingar. Í persónulegra bréfi sem Sveinn hafði áður sent til Íslands hafði málinu fyrst verið hreyft. Þar voru nefndir embættismennirnir sem áttu að fá orðu og síðan sagði Sveinn:
„Aftur á móti gæti komið til mála að hentugt væri vegna framtíðarinnar að krossa núverandi utanríkisráðherra Ítalíu, [Galeazzo] Ciano. Hann er tengdasonur Mussolini, búist við að hann muni verða fastur í sessi sem utanríkisherra, hefir lítið af orðum fyrir og mundi því verða sérlega vinveittur, ef hann fengi íslenzkan kross. Var það að samkomulagi að Kruse [danski sendiherrann í Róm] þreyfaði [sic] fyrir sér með gætni, hvort við ætti og hentugt væri fyrir framtíðina að hann fengi nú stórkross Fálkaorðunnar. Ef íslenzka ríkisstjórnin getur fallist á þessa skoðun, þyrfti að liggja fyrir heimild til þess, áður en Kruse þreyfar fyrir sér.“

Síðan kemur fram í bréfinu að það sé álit Sveins, Kruse og Jóns Krabbe, starfsmanns íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn, að brýnt sé að orðuveitingarnar dragist ekki, og í fyrrnefndu bréfi Sveins til Jóns Sveinbjörnssonar kemur fram að ítalska ríkisstjórnin hafi svarað fyrirspurn Kruse sendiherra og gefið til kynna að hún vildi „mjög gjarnan“ að nefndir Ítalir, þar á meðal utanríkisráðherrann, fengju þá orðu frá Íslandi sem til boða stæði.
Og þannig vildi það til að næstæðsti foringi ítalskra fasista - sem Ciano var óumdeilanlega - skartaði svo íslenskri orðu upp frá því, þótt reyndar viti ég ekki hvort hann tamdi sér að ganga með hana hvunndags.
Eins og fram kom í bréfi Sveins Björnssonar var Galeazzo Ciano tengdasonur Benito Mussolinis einræðisherra og fasistaleiðtoga Ítalíu. Hann var greifi að tign, rúmlega þrítugur og hafði verið viðloðandi fasistaflokk Mussolinis frá æskuárum. Faðir hans var einn af nánustu og fyrstu bandamönnum Mussolinis og Ciano sjálfur tók þátt í „göngunni til Róm“ sem tryggði fasistum völdin á Ítalíu 1922.
Árið 1930 gekk hann að eiga Eddu Mussolini dóttur einræðisherrans. Þau eignuðust þrjú börn.
Í júní 1936 skipaði Mussolini tengdason sinn utanríkisráðherra Ítalíu. Ciano var glaumgosi mikill en fylgdi fasisma tengdaföðurins út í æsar. Hann studdi dyggilega „ævintýri“ Mussolinis, eins og styrjöld í Eþíópíu og innrás í Albaníu, og studdi hann þegar Mussolini gerðist æ nánari Adolf Hitler foringja Þjóðverja.
Þegar Mussolini ákvað hins vegar að fylgja Hitler út í stríð 1940 lagðist Ciano gegn því af því hann gerði sér betri grein fyrir því en Mussolini að ítalski herinn var engan veginn tilbúinn í stríð. Eftir sem áður var hann í hópi stuðningsmanna Mussolinis lengi framan af stríðinu.
Þegar Mussolini var steypt af stóli haustið 1943 var Ciano hins vegar einn þeirra sem greiddu því atkvæði að víkja honum frá. Þjóðverjar komu Mussolini hins vegar aftur til valda í hluta landsins og Ciano var handtekinn.

11. janúar 1944 var Ciano tekinn af lífi fyrir uppreisn gegn Mussolini tengdaföður sínum. Til að niðurlægja hann enn frekar var honum ekki stillt upp fyrir framan vanalega aftökusveit heldur bundinn niður í stól og svo skotinn aftan frá. Ein sögusögn hermir þó að hann hafi náð að vinda upp á sig svo höfuð hans sneri að böðlinum með skammbyssu sína í hendinni og hafi Ciano þá hrópað: „Lengi lifi Ítalía!“
Og var skotinn við svo búið.
Ekki veit ég til að aðrir handhafar hinnar íslensku fálkaorðu hafi verið í hópi helstu leiðtoga fasista í heiminum.
Hvað þá að einhver annar orðuhafi hafi verið tekinn af lífi.
Sennilega hafa erfingjar Cianos ekki hirt um að skila orðunni aftur til íslenska ríkisins eins og lög kveða þó á um að gera skuli við andlát orðuhafa.
Athugasemdir