Alþýðusamband Íslands leggst gegn innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Þetta kemur fram í umsögn þessarar stærstu fjöldahreyfingar launafólks á Íslandi.
„Raforka er grunnþjónusta og á ekki að mati Alþýðusambands Íslands að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði,“ segir í umsögninni sem birtist á vef Alþingis í dag og er undirrituð af Drífu Snædal, forseta ASÍ.
„Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.“
ASÍ telur það vera forsendu fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu, landsmenn allir njóti arðs af nýtingu auðlindanna og geti ráðstafað orkunni til uppbyggingar atvinnu hér á landi.
Athugasemdir