Tvö vindorkuver eru fyrirhuguð á Vesturlandi og hafa tillögur að áætlunum vegna mats á umhverfisáhrifum þeirra verið auglýstar. Verin verða staðsett annars vegar í Dalabyggð og hins vegar í Reykhólasveit og er áætluð afkastageta hvors allt að 130 megavött. Morgunblaðið greinir frá.
Fyrirtækið Storm Orka hyggst koma á fót vindorkugarði í landi Hróðnýjarstaða við Hvammsfjörð. Reistar verða þá 18 til 24 vindmyllur til að framleiða 85 megavött í fyrsta áfanga. Eigendur jarðarinnar standa að fyrirtækinu, en vindmylluframleiðandinn Siemens Gamesa Renewable Energy veitir ráðgjöf. Vonir standa til að vindorkugarðurinn muni stækka í 130 megavött.
Þá áformar EM Orka að reisa allt að 130 megavatta vindorkugarð í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólahreppi. Allt að 35 vindmyllur yrðu reistar þar til að ná 130 megavatta afkastagetu, en samkvæmt áformunum verða þær staðsettar á Garpsdalsfjalli, hátt yfir sjó. Fyrirtækið að baki verkefninu heitir EMP Holdings og er það í sameiginlegri eigu EMP IN á Írlandi og Vestas, eins stærsta vindmylluframleiðanda heims.
Helstu umhverfisáhrif framkvæmdanna snúa að hljóðvist og ásýnd, samkvæmt tillögunum, og hefur Skipulagsstofnun gefið frest til athugasemda fram í byrjun maí.
Athugasemdir