Í dag eru 100 ár frá fjöldamorðinu í Amritsar á Indlandi. Það er sá einstaki atburður sem kannski varð frekar en nokkur annar til þess að reka nagla í líkkistu bresku stjórnarinnar á Indlandi, og eitt grimmilegasta ódæði breska heimsveldisins.
Bretar höfðu smátt og smátt náð öllum yfirráðum á Indlandi. Sú saga er löng og einkar furðuleg, því svo seint sem í byrjun 18. aldar voru Indverjar á engan hátt eftirbátar Breta í hernaðartækni og –tólum, en hins vegar voru þeir tuttugu sinnum fjölmennari. Samt höfðu Bretar tryggt sér völd yfir öllu Indlandi á að giska um miðja 19. öld.
Þeir höfðu gengið á lagið þegar hið veldi Mógúla molnaði í sundur á 18. öld og sigruðu arftaka Mógúlanna, Maratharíkið, í byrjun 19. aldar. Svo beittu þeir óspart hinni gömlu taktík Rómverja að „deila og drottna“ og fengu marga valdamikla fursta í lið með sér með því að lofa þeim að sitja áfram á sínum praktuglegu valdastólum og njóta lífsins, en Bretar sæju um landstjórnina.
Sjálfstæðissinnum vex fiskur um hrygg
Í byrjun 20. aldar var mörgum Indverjum farið að blöskra þetta ástand og sjálfstæðisbarátta var víða hafin. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út sýndu milljónir Indverjar Bretum að vísu tryggð með því að ganga í breska herinn og aðstoða við stríðsreksturinn með öðrum hætti. En á sama tíma var sjálfstæðissinnum mjög að vaxa fiskur um hrygg.
Í borginni Amritsar í Punjab-héraði voru Síkhar til dæmis farnir að krefjast sjálfstæðis æ sterkari röddu. Bretar höfðu í raun sett herlög á Indlandi árið 1915 til að hindra að mótmæli og sjálfstæðisviðleitni trufluðu stríðsreksturinn. Þegar stríðinu lauk voru þær ströngu reglur hins vegar framlengdar, sem og strangar refsingar sem lágu við brotum á boðum og bönnum Breta.
Óeirðir í Amritsar
Þann 10. apríl brutust út alvarlegar óeirðir í Amritsar þegar mannfjöldi mótmælti handtöku tveggja sjálfstæðissinna, sem reyndu aðhylltust kenningar Gandhis um friðsamleg mótmæli og borgaralega óhlýðni. Nokkrir mótmælendur voru drepnir en einnig nokkrir Bretar sem ráðist var á. Bretar settu ströng herlög í borginni til að bregðast við vaxandi óróa og fjöldafundir voru til dæmis bannaðir.

Sunnudaginn 13. apríl komu þúsundir manna saman í Jallianvala Bagh garðinum til að mótmæla Bretum og ofríki þeirra. Tölur um fjölda mótmælenda eru á reikie en voru einhvers staðar á bilinu sex til tuttugu þúsund. Garðurinn er rúmlega tveir hektarar og afluktur af húsum og múrum á alla vegu.
Fyrirvaralaus skothríð
Reginald Dyer ofursti stýrði hersveit sem umkringdi garðinn og átti að halda uppi lögum og reglu. Flestir hermannanna voru Indverjar. Nær fyrirvaralaust skipaði Dyer mönnum sínum að hefja skothríð á óvopnaða mótmælendur og var svo skotið samfellt í tíu mínútur. Þegar Bretar létu rannsaka málið eftir á var niðurstaða þeirra að rúmlega 300 manns hefðu fallið. Indverjar sögðu þá hafa verið að minnsta kosti þúsund og þar á meðal voru börn allt niður í nokkurra vikna gömul.
Þótt Bretar reyndu að bæla niður fregnir um fjöldamorðin í Amritsar bárust þær samt hratt út og vöktu mikla hneykslun. Segja má að eftir þetta hafi almenningur á Indlandi talað nær einum rómi um að Bretar yrðu að hafa sig á brott hið skjótasta. Bresk yfirvöld neyddust til að viðurkenna að fjöldamorðin hefðu verið hneyksli og Dyer var sendur heim með skömm. Flestir vissu þó að bak við tjöldin dáðust margir Bretar að Dyer fyrir að sýna Indverjum í tvo heimana.
„Nú langar mig að deyja“
Dyer missti heilsu nokkrum árum seinna og dó eftir mikil veikindi 1927, átta árum eftir að hann skipaði mönnum sínum að skjóta á mannfjöldann í Jallianvala Bagh.
Sagt er að á dánarbeði hafi Dyer sagt eitthvað á þessa leið: „Svo margir þeirra sem þekkja til á Indlandi segja að ég hafi breytt rétt. En aðrir segja að ég hafi haft rangt fyrir mér. Nú langar mig bara að deyja svo ég geti spurt skapara minn hvort ég gerði rétt eða rangt.“

Hann gat sem sagt ekki gert sér grein fyrir því sjálfur, ekki einu sinni á dánarbeði.
Yfirforinginn myrtur 21 ári seinna
Yfirmaður Dyers árið 1919 hafði verið landstjóri Breta í Punjab, Michael O’Dwyer. Hann hrósaði Dyer alla tíð fyrir framgöngu sína og sagði hann hafa brugðist rétt við. Margir telja að Dyer hafi fyrst og fremst verið að framfylgja skipunum O’Dwyers með skothríðinni á mannfjöldann og árið 1940 réðist indverskur sjálfstæðissinni, Udham Singh, að O’Dwyer á götu í London og skaut hann til bana. Sjálfur var Singh svo hálshöggvinn fyrir morð fjórum mánuðum síðar.
„Hugleiða“ að biðjast afsökunar
Þótt Bretar hefðu ekki sýnt sitt ruddalegasta andlit í Amritsar fyrir réttum 100 árum hefði Indland nú hlotið sjálfstæði fyrr eða síðar samt. En líklegt má telja að blóðbaðið hafi þjappað Indverjum betur saman og þannig flýtt því að þeir kröfðust sjálfstæðis svo háum rómi að Bretar urðu að hlusta. Indland fékk loks sjálfstæði 18 árum eftir að Dyer hrópaði á menn sína að skjóta á mannfjöldann.
Núna, hundrað árum eftir þetta hrottalega fjöldamorð, segir talsmaður breska utanríkisráðuneytisins að bresk stjórnvöld séu að „hugleiða“ hvort þau eigi að biðjast formlega afsökunar á ódæðinu.
Athugasemdir