Foreldrar og kennarar barna í Varmárskóla eru ósáttir við skólastjórnendur. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir hins vegar gagnrýni foreldra á skólastjórnendur Varmárskóla vegna húsnæðismála hafa farið úr hófi fram.
Á fjölmennum fundi foreldra barna í Varmárskóla þann 1. apríl síðastliðinn var rætt um þungar áhyggjur foreldra af líðan barnanna, námsárangri auk rakaskemmda í húsnæði. Að fundi loknum sendu foreldrar ályktun á Harald Sverrisson, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, og skólastjórnendur þar sem foreldrar skora á bæinn og skólastjórn að fá utanaðkomandi fagaðila til að gera úttekt á skólastarfinu.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir hins vegar eina ástæðu þess að betri úrlausn náist ekki í húsnæðismálum vera sú að of mikill tími skólastjórnenda fari í að svara eða bregðast við gagnrýni af hálfu foreldra. „Það hefur bara verið þannig að stór hluti af tíma stjórnenda skólans undanfarið hefur farið í að umgangast, bregðast við eða taka á gagnrýni á þá stofnun. Ég verð að segja það að þótt gagnrýni eigi rétt á sér þá finnst mér að hún hafi farið úr hófi fram,“ sagði Haraldur á bæjarstjórnarfundi 6. mars síðastliðinn.
„Ég verð að segja það að þótt gagnrýni eigi rétt á sér þá finnst mér að hún hafi farið úr hófi fram“

Foreldrar og foreldrafélag Varmárskóla hafa gagnrýnt skólastjórnendur fyrir ýmis mál sem tengjast skólastarfinu. Einna helst má nefna gagnrýni þeirra varðandi viðbrögð skólans við rakaskemmdum og myglu sem fundust í húsnæði skólans, en foreldrar telja skólann hafa setið á upplýsingum sem varðar heilsu og vellíðan barna í skólanum.
Rakaskemmdir og mygla í húsnæði
Sjónskoðun og rakamæling af hálfu verkfræðistofunnar Eflu fór fram í júní 2017 á húsnæði skólans. Deildarstjóri skólans hafði kallað eftir mælingum þar sem starfsfólk skólans hafði fundið til óþæginda á vissum svæðum í húsinu. Auk þess hafi þakið lekið í töluverðan tíma og grunur var um myglusveppamyndun. Við skoðunina kom í ljós að töluverðar rakaskemmdir voru sjáanlegar á þeim hlutum húsnæðisins sem skoðaðar voru.
Ein skólastofan kom sérstaklega illa út úr úttektinni en það er skólastofa 216. Efla tekur fram í minnisblaði að ekki sé hægt að mæla með notkun á rýminu þar sem ekki er hægt að vita um ástand þess með fullri vissu. Vert er að minnast á að ekki var allur skólinn skoðaður í úttektinni.
Athugasemdir