Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir íhugar næstu skref eftir að kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði um að Þingvallanefnd hefði brotið jafnréttislög þegar gengið var fram hjá Ólínu við ráðningu í starf þjóðgarðsvarðar í fyrra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, var ráðinn í starfið. „Ég lýsi ánægju með þennan úrskurð,“ segir Ólína. „Það er fallist á það sjónarmið sem ég taldi við blasa að það var rangt staðið að þessari ráðningu og málefnaleg sjónarmið réðu ekki úrslitum um hana. Vinnubrögðin og stjórnsýslan voru ekki í lagi og það var ekki vandað til vinnubragða. Ákveðinn hluti af þessu ráðningarferli var geðþóttastjórnsýsla og pólitískur fyrirgangur. Það var það sem var erfiðast að sætta sig við.“
Ólína segir mikilvægt að fólk njóti verðleika sinna þegar sótt er um starf, en hún er fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. „Það á enginn að þurfa að gjalda fyrir það að hafa verið í stjórnmálaflokki, hafa þjónað þjóð sinni á Alþingi Íslendinga, hafa skoðanir eða fyrir að vera kona á tilteknum aldri. Þú átt að njóta verðleika þinna, hvort sem þú ert karl eða kona.“
Athugasemdir