Margir menn upplifa að sér vegið í femínískri umræðu, þá kannski sérstaklega í umræðunni um kynbundið ofbeldi og karlmennsku. Þegar ráðandi hugmyndir um karlmennskuna eru gagnrýndar sé þar með verið að gagnrýna þá persónulega. Sem þarf ekki að vera skrítið ef kjarnaviðhorf manna er að hluta til samsett út frá hugmyndum um karlmennskuna. Um það hvernig alvöru maður er og á að vera. Þess vegna verður gagnrýni á kerfisbundna hegðun eða birtingarmynd hugmynda í hegðun karlmanna eins og persónuleg árás.
Hugmyndin um karlmennsku
Sama hversu jákvæð karlmennskan kann að vera þá er hún samt bara samansafn hugmynda um útlit, hegðun, hæfni og viðhorf sem við gefum karlmennskumerkingu. Hinar jákvæðustu afleiðingar þessara hugmynda á einstaklinga núlla ekki út þær neikvæðu. Fræðafólk er almennt á því máli að félagslega hegðun fólks megi útskýra með félagslegum skýringum. Það er að segja að veruleikinn og fólkið í honum skapi veruleikann, samfélagið. Þá er stuðst við kenningar um félagslega mótunarhyggju en ekki eðlishyggju sem gerir ráð fyrir líffræðilegum útskýringum á veruleikanum. Þótt einstaklingar búi yfir líffræðilegum fjölbreytileika dugi það eitt og sér ekki til að útskýra félagslegan veruleika. Þannig er hugmyndin um karlmennsku og hinn alvöru karlmann, félagsleg afurð sem háð er tíðaranda og menningu. Þess vegna getum við breytt hugmyndum karlmennskunnar, betrumbætt, endurskoðað og þurfum ekki að hrökkva í vörn. Þetta er ekkert persónulegt, þótt það varði þig persónulega.
„Þannig er hugmyndin um karlmennsku og hinn alvöru karlmann, félagsleg afurð sem háð er tíðaranda og menningu“
Alvöru menn?
Auðvitað er óþægilegt að horfast í augu við að gildin sem maður í góðri trú gengst upp í séu kannski ekki svo jákvæð. Kerfisbundin mótun karlmennskunnar í gegnum hæfni, viðhorf, útlit og hegðun. Að bæla niður tilfinningar og harka allan fjanda af sér, er kannski ekki jafn gott fyrir mann til lengri tíma litið. Að meta karlmennsku út frá fjarlægðinni frá kvenleika er kvenfyrirlitning í dulargervi. Að seiglan og hugrekkið sem fæst með ósvikinni karlmennskuhugmyndinni á kannski þátt í markaleysi og ótímabærum dauðsföllum. Að ábyrgðar- og lært áhugaleysi á ólaunuðum heimilisstörfum er kannski arfleifð úreltra karlmennskuhugmynda feðra okkar. Að geta ekki tjáð einlæga væntumþykju til vina sinna vegna inngróinnar hómófóbíu, er ekki gagnlegt. Að sjá fullorðna karlmenn barma sér yfir rakvélaauglýsingu og gagnrýni á úreltar karlmennskuhugmyndir, er kannski ekkert afskaplega karlmannlegt (í samhengi við viðteknar hugmyndir okkar um karlmennskuna). Hvað eru menn að standa vörð um? Hvers konar karlmennsku og manndóm eru menn að verja?
„Að meta karlmennsku út frá fjarlægðinni frá kvenleika er kvenfyrirlitning í dulargervi“
Við getum það!
Menn eru að verja sjálfa sig og eigið egó. Í stað þess að sjá veruleikann sem þessar hugmyndir hafa alið af sér. Þessar íhaldssömu þvingandi hugmyndir. Þá slá menn skjaldborg í kringum kyrrstöðuna í óöryggi sínu og ótta við missi. Missinn á félagslegum yfirráðum sínum. Kerfisbundnum yfirráðum sem eru háð þessum íhaldssömu eðlislægu hugmyndum um karlmennskuna sem bitna á öllm, konum, börnum og köllum (og þeim sem fitta ekki inn í þá formúlu).
Metoo er ekki afleiðing gjörða fárra manna sem kunna ekki að haga sér. Heldur afleiðing innrætingar á yfirráðum karlmennskunnar og karlmanna yfir konum. Kynbundin áreitni og ofbeldi á sér ekki stað í tómarúmi. Heldur er afleiðing samfélagsgerðar sem mótuð hefur verið í anda eðlishyggju hugmynda um yfirráð karlmennskunnar.
Á meðan við afvegaleiðum umræðuna, bendum á aðra menn sem eru sko verri og afneitum kerfisbundnum afleiðingum karlmennskunnar verðum við ekki hluti af lausninni. Hættum að þvælast fyrir og verum hluti af lausninni. Konum hefur tekist að brjóta niður ýmsar kerfisbundnar kúganir kynjakerfisins, við getum það líka.
Athugasemdir