Síðastliðna viku hafa flóttamenn dvalið á Austurvelli til að mótmæla framkomu íslenska ríkisins í þeirra garð. Í gær sendu þeir frá sé tilkynningu þess efnis að þeir væru að yfirgefa Austurvöll, heilsu sinnar vegna.
Ég fylgdist áhugasamur með þessum mótmælum á meðan þau stóðu yfir og mun halda áfram að fylgjast með gangi mála. Eitt sem sló mig og marga aðra í kringum mig er grimmdin sem sumir samlandar mínir sýndu flóttamönnunum. Þau sjást helst í kommentakerfunum. Fólk sem hefur ekkert nema óbeit á flóttamönnunum, þó það þekki þá ekki neitt. Fólk sem gleðst yfir því að lögreglan beiti þá ofbeldi. Fólk sem fitjar upp á nefið og segir að flóttamennirnir ættu bara að vera þakklátir að fá að vera hérna yfir höfuð.
Ég vil að við köllum hlutina réttum nöfnum. Rétta nafnið yfir þessa framkomu gagnvart flóttamönnum er villimennska. Það er villimennska að gleðjast yfir því að saklaust fólk sé beitt ofbeldi. Það er villimennska að hata þá sem eru öðruvísi. Það er villimennska að meta lög og reglu meira en mannréttindi og mannúð. Þessir samlandar okkar sem haga sér svona eru villimenn.
„Það er villimennska að gleðjast yfir því þegar flóttamenn eru beittir ofbeldi“
En það eru ekki villimennirnir í kommentakerfunum sem ég hef mestar áhyggjur af. Ég hef mun meiri áhyggjur af villimönnunum í ríkisstjórninni, Alþingi, lögreglunni og Útlendingastofnun. Það er villimennska að gleðjast yfir því þegar flóttamenn eru beittir ofbeldi, en það felst mun meiri villimennska í því að vera sá sem beitir ofbeldinu. Það er villimennska að hata flóttamann, en það er miklu meiri villimennska að senda hann aftur til stríðshrjáðra svæða.
Stefna íslenska ríkisins gagnvart flóttamönnum og hælisleitendum er villimennska. Við sem viljum byggja hér siðmenntað samfélag, samfélag sem byggir á mannréttindum, jöfnuði og náungakærleika, verðum að berjast gegn þessu. Við verðum að heimta breytta stefnu í málefnum flóttamanna. Við verðum að krefjast þess að ríkið beiti sér af mannúð frekar en mannfyrirlitningu. Því að á meðan íslenska ríkið einkennist af villimennsku, þá erum við öll villimenn.
Athugasemdir