Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varar við því að umræða um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu fari að snúast um evrópskt samstarf almennt, þjóðréttarskuldbindingar og aðild Íslands að mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindadómstólnum í Strassborg.
„Við eigum ekki að hleypa þessari umræðu í pólitískar skotgrafir ef okkur er alvara með því að við viljum tryggja hér frið um réttarkerfið. Við eigum ekki að hleypa þessari umræðu í það hvað okkur finnst um evrópskt samstarf eða erlendar skammstafanir almennt. Þetta hefur bara ekkert með það að gera. Þetta hefur með það að gera að við erum aðilar að mannréttindadómstólnum og höfum verið það áratugum saman,“ sagði forsætisráðherra í munnlegri skýrslu sinni um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem hún flutti á Alþingi á þriðja tímanum að beiðni stjórnarandstöðunnar.
„Við erum aðilar að mannréttindadómstólnum
og höfum verið það áratugum saman“
Nærtækast er að túlka ummæli Katrínar Jakobsdóttur sem gagnrýni á málflutning Sjálfstæðismanna, svo sem Bjarna Benediktssonar sem hefur kallað eftir umræðu um hvort Íslendingar hafi „framselt túlkunarvald yfir íslenskum lögum til Evrópu“.
Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur talað á sama veg. Þegar hún tilkynnti um afsögn sína sagðist hún ekki myndu „láta það átölulaust að dómstólar séu notaðir í pólitískum tilgangi“ og bætti við: „Ég mun heldur ekki láta það átölulaust að íslenskir dómstólar framselji vald til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla.“
Jón Steinar Gunnlaugsson, einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á sviði lögfræði og réttarheimspeki, hefur gengið lengst og kallað dóm Mannréttindadómstóls Evrópu „árás á fullveldi Íslands“ og hvatt til þess að allir dómarar við Landsrétt sitji áfram og kveði upp dóma þrátt fyrir niðurstöðuna enda hafi dómar MDE ekki beina réttarverkan á Íslandi.
Katrín Jakobsdóttir talaði með allt öðrum hætti í munnlegri skýrslu sinni í dag. „Hér var á sínum tíma, til fyrirmyndar, tekin sú ákvörðun í breiðri samstöðu, að breyta mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og lögfesta ákvæði sáttmálans,“ sagði hún um mannréttindasáttmála Evrópu.
„Mönnum líður oft ekkert vel með
að mál fái alþjóðlega rýni og geta
þá gripið til alls konar varna“
„Við vitum það hins vegar að í langri sögu Mannréttindadómstólsins hefur svo sannarlega reynt á viðkvæm álitamál. Mönnum líður oft ekkert vel með að mál fái alþjóðlega rýni og geta þá gripið til alls konar varna því eðli mannréttinda er að þau hafa gildi óháð landamærum. En leyfum okkur það, sem lýðræðissamfélag, að reifa þessi ólíku sjónarmið með málefnalegum hætti af því við vitum að við erum sammála um það að mannréttindi hafa vernd þvert á landamæri, það er okkar leiðarljós. Það kunna hins vegar að vera uppi ýmis sjónarmið um hvernig nákvæmlega eigi að túlka þennan dóm og finna bestu lausnina á honum, og leyfum okkur að tala um það.“
Athugasemdir