„Réttaróvissan er afar slæm fyrir alla aðila, börn, foreldra og fósturforeldra,“ segir Tómas Hrafn Sveinsson, formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og hæstaréttarlögmaður í samtali við Stundina.
Fjöldi dóma í barnaverndar-, forsjár- og umgengnismálum hefur verið kveðinn upp í Landsrétti síðan millidómstigið tók til starfa í fyrra og mörg viðkvæm mál bíða úrlausnar. Fjórmenningarnir sem skipaðir voru landsréttardómarar með ólögmætum hætti og í trássi við mat hæfnisnefndar hafa dæmt í tugum slíkra mála. Af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu má ráða að með dómunum, og jafnvel einnig dómum hinna ellefu dómaranna, hafi verið brotið gegn rétti dómþola til að fá úrlausn fyrir óhlutdrægum og sjálfstæðum dómstól.
Tómas Hrafn bendir á að vegna eðlis barnaverndarmála sé lögð sérstök áhersla á málshraða þegar þau eru fyrir dómi. Kæru- og áfrýjunarfrestir séu styttri en í öðrum málum, enda sé réttaróvissa sérstaklega slæm í svo viðkvæmum málum.
„Þess vegna er mjög brýnt að eyða þessari óvissu sem hefur skapast í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, bæði hvað varðar barnaverndarmál sem þegar hafa verið flutt í héraði og bíða fyrir Landsrétti og svo ekki síst vegna þeirra mála sem þegar hafa hlotið endanlega afgreiðslu Landsréttar,“ segir Tómas Hrafn.
Stundin hefur rætt við lögmenn, lögfræðinga og málsaðila í dómsmálum eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp. „Það er skelfilegt að vera settur í biðstöðu þegar málið var loksins komið á þetta stig, þegar maður hélt loksins að þetta væri að verða búið,“ sagði einn af viðmælendum Stundarinnar í gær, aðili að viðkvæmu dómsmáli sem var á dagskrá Landsréttar í vikunni en hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma vegna dóms Mannréttindadómstólsins.
RÚV og Vísir.is greindu frá því fyrir hádegi að Fangelsismálastofnun hefðu borist beiðnir um að afplánun dæmdra manna yrði frestað vegna dóms Mannréttindadómstólsins. Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður tjáði sig um réttaróvissuna í Morgunútvarpinu á Rás 2: „Þetta er fyrst og fremst óvissan sem er þá fyrir þá sem að eru búnir að fá dóma, kannski sitja í fangelsi eða eitthvað þess háttar og þá fyrir þá tugi og hundruð mála sem biða úrlausnar. Hvernig á að greiða út þessu? Á að taka bara einhvern veginn áhættuna af því að þetta blessist einhvern veginn eða þetta verði allt ónýtt eftir að við erum búin að halda áfram í einhvern tíma? Það er svona viðfangsefni dagsins sem er mjög alvarlegt.“
Hvorki dómstólar né ríkisstjórn Íslands hafa látið birta upplýsingar um hvaða þýðingu dómurinn hefur fyrir fólk sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða er aðilar að málum fyrir dómstólnum og með hvaða hætti verður brugðist við. Þá hafa engar aðgerðir verið boðaðar til að tryggja réttaröryggi íslenskra borgara eftir að ljóst varð að mannréttindabrot voru framin gegn fjölda fólks í Landsrétti.
Athugasemdir