Þingflokksformaður Vinstri grænna segir þingflokkinn þurfa að setjast niður og taka afstöðu í málinu áður en hún tjái sig nokkuð um niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dómi sem kveðinn var upp í morgun var íslenska ríkið dæmt brotlegt vegna vinnubragða Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði fjóra dómara við Landsrétt í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017.
„Ég ætla að gefa mér tíma til að fara yfir þetta með mínu fólki áður ég segi nokkuð um það,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, um málið.
Bjarkey var ein níu þingmanna Vinstri grænna sem vörðu dómsmálaráðherra vantrausti í mars í fyrra. Höfðu þá dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að embættisfærslur ráðherra í Landsréttarmálinu hefðu falið í sér brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
„Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef vantraust verður samþykkt,“ sagði Bjarkey þegar hún greindi frá atkvæði sínu. „Við myndum líta þannig á ef málið sneri að okkur, annað er einföldun á pólitíkinni að mínu mati. Ég er ánægð með þetta ríkisstjórnarsamstarf. Ég vil ekki fórna góðri forystu Katrínar Jakobsdóttur því að ég trúi því einlæglega að við eigum eftir að koma mörgum góðum málum áfram í gegnum þingið enda erum við rétt að hefja vegferðina.“
Aðspurð hvort hún hafi skipt um skoðun frá því hún varði Sigríði Andersen vantrausti í málinu í mars í fyrra segir Bjarkey: „Það er ekki komið til þess að taka neina afstöðu til þess, að mínu mati.“
Aðspurð hvort hún treysti Sigríði Andersen til að vinna úr þeirri flóknu stöðu sem komin er upp vegna niðurstöðunnar svarar Bjarkey á sama hátt. „Ég ætla ekkert að tjá mig um það fyrr en ég er búin að lesa dóminn og ræða við mitt fólk. Þá setjumst við niður og tökum afstöðu um það.“
Athugasemdir