„Við eigum ekki að taka við þessu sem er að gerast í dag. Þeir sem hafa völdin í dag, þeir eiga að laga þetta!“ kallaði mótmælandi á fjöldamótmælum ungmenna á Austurvelli í dag.
Ungir Íslendingar á grunnskóla- og menntaskólaaldri hafa nú mótmælt þrjá föstudaga í röð í tilraun til að tryggja framtíð sína. Margir þeirra hafa tekið sér frí frá skóla, með eða án leyfis, til þess að mæta á mótmælin.
Mótmælendurnir vilja að gripið verða til aðgerða þegar í stað til að hindra frekari loftslagsbreytingar.
„Framtíð okkar á að vera björt,“ sagði mótmælandinn, Elsa María Guðlaugs- og Drífudóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta, í ræðu sinni.
Meðal þeirra sem héldu ræður voru Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Sigurður Thorlacius, úr Ungum umhverfissinnum, og svo ungir nemendur úr Vesturbæjarskóla, sem fóru fram á að segja nokkur orð.
Önnur mótmæli eru boðuð næstkomandi föstudag.
Athugasemdir