Séreignarsparnaðarleiðin svokallaða, sem kynnt var sem hluti af skuldaleiðréttingunni í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefur gagnast tekjuháum mest. Úrræðið kostar um 2 milljarða króna í ár.
Þetta kemur fram í húsnæðiskafla skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum sem kynnt var á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í gær.
Séreignasparnaðarleiðin var kynnt haustið 2013 sem hluti af „leiðréttingunni“ sem tímabundin aðgerð, en var framlengd aftur árið 2017 í tvö ár. Í leiðinni felst að heimilt sé að ráðstafa séreignasparnaði skattfrjálst til að lækka höfuðstól húsnæðislána. Úrræðið rennur út í lok júní á þessu ári, en samkvæmt nefndinni hefur nýting þess einkum verið hjá þeim sem hærri tekjur hafa.
„Sérfræðingahópur og stýrinefndin telja að úrræðið sé ekki til þess fallið að styðja við fólk á húsnæðismarkaði sem hefur lágar tekjur og gera því ekki tillögu um framhald þess,“ segir í skýrslunni. Stýrinefnd verkefnisins var skipuð aðstoðarmönnum ráðherra úr stjórnarflokkunum Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Í skýrslunni er bent á að markmið úrræðisins hafi fyrst og fremst verið að auðvelda fjölskyldum að eignast húsnæði án óhóflegrar skuldsetningar.
„Séreignarsparnaðarúrræðið hefur einna helst verið gagnrýnt fyrir að nýtast illa þeim sem hafa lágar launatekjur og alls ekki þeim sem eru á bótum,“ segir í skýrslunni. „Þá njóti leigjendur einskis af þessu skattfrelsi. Engin leið er að hafna því að þessir ágallar eru á gildandi kerfi, enda er það sniðið að einstaklingum sem eru á vinnumarkaði og búa í eigin húsnæði.“
Árið 2016 var til viðbótar tekið upp nýtt varanlegt úrræði af sama toga fyrir kaupendur sinnar fyrstu íbúðar. Áætlaður kostnaður við það er um 1 milljarður króna í ár. Sérfræðingahópurinn gerir ekki tillögu um að leggja það niður, en varar þó við að of langt sé gengið í þeim efnum vegna tekjutaps sem hið opinbera verður af í framtíðinni og að það gangi gegn markmiðum sjóðasöfnunar í lífeyriskerfinu. Úrræðið sé nýtt og takmarkaðar upplýsingar tiltækar um hvernig það hafi nýst.
Hæsta tekjutíundin fékk hundruð milljóna í stuðning
Í kaflanum kemur einnig fram að hæstu upphæðir húsnæðisstuðnings renni til tekjuhópanna um eða rétt undir meðaltekjum. Hæsta tekjutíundin fái nánast sömu upphæð í húsnæðisstuðning á ári og sú lægsta. Sá stuðningur hafi að nær öllu leyti komið í gegnum séreignasparnaðarleiðina, sem rýri skatttekjur hins opinbera í framtíðinni. Alls nemur húsnæðisstuðningur um 25,5 milljörðum króna í ár og renna 14,2 milljarðar til eigenda húsnæðis, en 11,3 milljarðar til leigjenda.
Loks kemur fram það viðhorf hópsins að vaxtabótakerfinu þurfi að breyta eða láta það renna sitt skeið. Áætlaður kostnaður við vaxtabætur í ár er um 3,4 milljarðar króna. Sérfræðingahópurinn telur að hagrænir hvatar kerfisins séu um margt óæskilegir og kerfið sé flókið, ógagnsætt og þungt í vöfum. Þá nái stuðningur vaxtabóta langt upp tekjudreifinguna en beinist ekki sérstaklega að þeim tekjulægstu.
„Sérfræðingahópur og stýrinefnd telja að annaðhvort þurfi að einfalda kerfið og beina stuðningi þangað sem þörfin er mest, jafnvel þannig að vaxtabætur verði tímabundnar eftir fyrstu kaup, eða viðhalda núverandi kerfi,“ segir í skýrslunni. „Seinni kosturinn felur í sér að kerfið einfaldlega renni sitt skeið með því hvernig viðmiðunarfjárhæðir verði uppfærðar. Aukin áhersla verði þá í kjölfarið lögð á stuðning við fyrstu kaup svo að kaupendur standist kröfu um eigið fé.“
Athugasemdir