Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, leikur lykilhlutverk í ákvarðanatöku um launakjör annars ríkisforstjóra í ljósi þess að hann er stjórnarformaður Isavia og einn tveggja í starfskjaranefnd fyrirtækisins. Gríðarlegt launaskrið hefur átt sér stað hjá ríkisforstjórum eftir að ákvörðun launa var flutt frá kjararáði til stjórna fyrirtækjanna.
Ingimundur hefur starfað sem forstjóri Íslandspósts frá árinu 2004 og var skipaður stjórnarformaður Isavia af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra árið 2014. Á tímabilinu 2014 til 2017 hækkuðu forstjóralaun Ingimundar hjá Íslandspósti úr 1.186.320 krónum á mánuði 1.435.941 krónur samkvæmt ákvörðunum kjararáðs. Á sama tíma hækkaði kjararáð launin hjá forstjóra Isavia úr 1.436.937 krónum upp í 1.747.891. Lögin um brottfall kjararáðs tóku svo gildi þann 1. júlí 2017.
Hjá Isavia, þar sem Ingimundur gegnir stjórnarformennsku, er sérstakri starfskjaranefnd falið að undirbúa tillögu til aðalfundar fyrirtækisins um starfskjör stjórnarmanna og viðmið fyrir laun og önnur starfskjör forstjóra sem og framkvæmdastjóra dótturfélaga. Í starfskjaranefndinni sitja einungis Ingimundur sjálfur og Margrét Guðmundsdóttir varaformaður stjórnarinnar.
Þegar ákvörðunarvald launa færðist til stjórna í stað kjararáðs hækkuðu laun forstjóra Isavia úr 1.747.891 krónum upp í 2.380.000 krónur, eða um 36 prósent. Hjá Íslandspósti hækkuðu forstjóralaunin einnig umtalsvert, úr 1.435.941 krónum upp í 1.795.00 krónur eða um 25 prósent.
Spyrja hvort tilmælin hafi skolast eitthvað til
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sendi stjórnum ríkisfyrirtækja bréf í fyrradag þar sem óskað var eftir því að þær greindu fjármála-og efnahagsráðuneytinu frá því hvernig stjórnarmenn hefðu brugðist við tilmælum frá 2017 um að gæta skyldi varkárni við launaákvarðanir.
Félag atvinnurekenda birtir færslu á Facebook þar sem því er velt upp hvort tilmælin hafi eitthvað skolast til á leiðinni úr ráðuneytinu og til stjórnar Íslandspósts: „Laun forstjórans hækkuðu um 25% á árinu 2017 við það að ákvörðun um laun hans færðist frá kjararáði til stjórnar Íslandspósts. Stjórnin hækkaði sín eigin laun í febrúar 2018 um 18%. Allt þetta gerist á sama tíma og Íslandspóstur stefnir í þrot.“
Bent er á að varaformaður stjórnar Íslandspósts er Svanhildur Hólm Valsdóttir. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Fréttablaðið greindi nýlega frá því að til ósættis hefði komið um launakjör forstjóra Íslandspósts á stjórnarfundi í janúar 2018 þar sem Ingimundur hefði lagði fram bókun um að hann teldi að afgreiðsla stjórnar á fjárhæð launagreiðslna væri ekki í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings. Þann 23. febrúar 2018 lagði svo stjórn Íslandspósts til að laun stjórnarmanna yrðu hækkuð úr 140 þúsund krónum á mánuði í 165 þúsund krónur. Á þessum tíma var þegar orðið ljóst að fyrirtækið glímdi við alvarlegan lausafjárvanda og nokkrum mánuðum síðar fór Íslandspóstur fram á neyðarlán frá ríkinu.
Eftir því sem Stundin kemst næst er Ingimundur Sigurpálsson eini ríkisforstjórinn sem kemur með jafn afgerandi hætti að ákvarðanatöku um laun annars ríkisforstjóra. Samkvæmt tilmælunum frá 2017 ber stjórnum að sýna varkárni við launaákvarðanir og gæta þess að „laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun“. Talsvert launaskrið hefur átt sér stað undanfarin ár og má leiða að því rök að forstjóri eins ríkisfyrirtækis hafi óbeina hagsmuni af því að forstjóri þess næsta hækki duglega í launum.
Athugasemdir