Allhart kuldaskeið gekk yfir heiminn og hófst um árið 1600. Það hefur verið kallað „litla ísöldin“ og Ísland varð til dæmis hart úti þangað til aftur fór að hlýna nærri tveim öldum síðar. „Litla ísöldin“ átti ríkan þátt í að tímabilið 1600-1800 hefur verið talið eitt hið erfiðasta í Íslandssögunni, þótt að líkindum hafi ástandið ekki verið alveg eins hörmulegt og lengi var talið - en það er önnur saga.
Um ástæður litlu ísaldarinnar hefur lítið verið fjallað hingað til. Þær hafa einfaldlega verið taldar eitthvað það flökt í gangi Jarðar og/eða Sólar sem valda reglulegum loftslagsbreytingum í veröldinni. En nú hafa fjórir breskir vísindamenn við háskóla í London og Leeds birt niðurstöður sem gefa til kynna að ástæðurnar fyrir „litlu ísöldinni“ kunni að hafa öllu nærtækari.
Nefnilega landganga Evrópumanna í Ameríku í kjölfar siglingar Kólumbusar yfir Atlantshafið 1492 og sá gríðarlegi mannfellir sem fylgdi í kjölfarið.
Evrópumenn voru á umtalsvert hærra tæknistigi en Ameríkumenn, ekki síst á hernaðarsviði, og áttu því auðvelt með að taka öll völd í „nýja heiminum“. Þeir gengu mjög hart og ruddalega fram, stráfelldu íbúa í Ameríku í milljónavís og ennþá fleiri dóu af plágum og sóttum allskonar, sem Evrópumenn báru með sér.
Þótt erfitt sé að reikna út mannfjöldann sem féll í hinum markvissu fjöldamorðum og sóttunum, auk harðæris af margvíslegu tagi sem Evrópumenn olli, vísvitandi og ekki, þá er ein niðurstaða sú að hvorki meira né minna en 56 milljónir manna af íbúum Ameríku hafi dáið frá 1492 til 1600 og rekja megi beint til komu Evrópumanna.
Og bresku vísindamennirnir Alexander Koch, Chris Brierley, Mark M. Maslin og Simon Lewis hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að þessi ógurlegi mannfellir hafi haft þær óvæntu afleiðingar að á skall „litla ísöldin“.
Rannsókn þeirra birtist í tímaritinu Quaternay Science Review nýlega og er hana að finna hér. Ritgerð þeirra heitir „Earth system impacts of the European arrival and Great Dying in the Americas after 1492“.
Landafræðiprófessorinn Maslin sagði frá niðurstöðum þeirra félaganna í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN. Þar er bent á að þvert ofan í það sem margir halda, þá hafi býsna stórir hlutar Ameríku verið akrar og landbúnaðarsvæði þegar Evrópumenn komu. Það hentaði Evrópumönnum hins vegar að útbreiða þá mynd að flestallir íbúar Ameríku hefðu verið ofurfrumstæðir skógarbúar og menningarsnauðir, og því var fróðleikur um búskaparháttu Ameríkumanna markvisst bældur niður. Og eftir „dauðann mikla“ lagðist landbúnaður frumbyggja Ameríku líka að mestu leyti af, einfaldlega þess að fólk vantaði og Evrópumenn höfðu rústað öllum samfélagsháttum.
Villtur gróður og frumskógur lögðu undir sig svæði á stærð við Frakkland að mati þeirra fjórmenninganna fyrrnefndu.
Afleiðingin varð sú að koltvísýringur í andrúmsloftinu minnkaði umtalsvert og kolefnismagn um víða veröld breyttist nógu mikið til að eiga ríkan þátt í að valda „litlu ísöldinni“.
„Koltvísýringur og loftslag höfðu haldist í þokkalegu jafnvægi fram að þessu,“ segir Maslin í samtalinu við CNN. „Þetta er fyrsta meiriháttar breytingin sem við sjáum í magni gróðurhúsalofttegunda í heiminum.“
Fjórmenningarnir halda því fram - eftir að hafa skoðað gögn fræðimanna allt frá veðurfræðingum til jarðvegsfræðinga, sagnfræðinga til fornleifafræðinga - að sá nýi skógur sem spratt fram á hinum fyrri ræktarsvæðum Ameríkumanna hafi verið grundvallarorsök „litlu ísaldarinnar“.
Með því að skoða öll tiltæk gögn hafi þeir, að sögn Maslins, komist að því að „eina ástæðan fyrir því að litla ísöldin varð svo grimmileg sem raun bar vitni ... voru þessi fjöldamorð á milljónum manna.“
Rannsóknir á kolefnismagni í Grænlandsísnum hafa þar skipt sköpum.
„Ískjarnar [þaðan] sýna að magn koltvísýrings lækkaði meira [en venjulega] 1610 og ástæðunnar er að leita á landi en ekki í sjó,“ segir annar vísindamannanna, Alexander Koch sem mun vera aðalhöfundur rannsóknarinnar. Breytingin sem varð á hitastigi var ekki mikil, aðeins um einn tíundi úr gráðu á 17. öld, en það dugði, að sögn Kochs í viðtali við CNN, til að vetur urðu kaldari, sumrin svöl og uppskerur í Evrópu brugðust hvað eftir annað.
Og afleiðingarnar af öllu þessu urðu að sumu leyti óvæntar. Vissulega olli „litla ísöldin“ miklum hörmungum í Evrópu til áratuga en þegar til lengri tíma var litið varð hernám Evrópumanna í Ameríku til þess að gera álfuna að herra heimsins, allt fram á þennan dag.
Hráefni og síðar fæðuinnflutingur frá „nýja heiminum“ (eftir að þar upphófst verulegur landbúnaður á ný, nú á forsendum Evrópumanna) auðgaði Evrópu, fólki fjölgaði, unnt var að draga úr þeim fjölda Evrópumanna sem þurfti að stunda landbúnað sér til lífsviðurværis og þá var mannafli laus í ný verkefni og nýjan iðnað.
„Það skrýtna er að mannfækkunin í Ameríkum kann að hafa orðið til þess að Evrópumenn gátu lagt undir sig heiminn,“ segir Maslin. „Hún opnaði líka á iðnbyltinguna og áframhaldandi yfirráð Evrópumanna.“
Athugasemdir