Rósa Björk Brynjarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, gagnrýnir harðlega Ara Trausta Guðmundsson, þingmann sama flokks, og segir hann og hina stjórnarliðana í umhverfis- og samgöngunefnd ekki hafa treyst sér til að taka afstöðu gegn kvenfyrirlitningu á fundi nefndarinnar í morgun.
„Tillögu þingmanna Samfylkingar, Viðreisnar og míns með stuðningi þingmanns Pírata um að kjósa um að hann myndi víkja sem formaður var vísað frá af nýjum meirihluta; þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokkks og hins þingmanns VG í nefndinni með stuðningi Klausturþingmanna í nefndinni,“ skrifar Rósa Björk á Facebook.
„Það var virkilega dapurlegt að sjá að þingmenn treystu sér ekki að taka afstöðu gegn kvenfyrirlitingu. Sérstaklega þingmann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem vill svo til að er hreyfing með kvenréttindi sem eina af grunnstoðum sínum.“
Rósa Björk segir að reynt sé að drepa málinu á dreif með lagaflækjum. Í grunninn snúist það hins vegar um að taka skýra afstöðu gegn kvenfyrirlitingu og með þolendum kvenfyrirlitningar. „Og þetta snýst ekki síst um virðingu Alþingis, virðingu þingnefnda, virðingu við gesti sem koma á fundi okkar og að við höldum uppi ákveðnum gildum og prinsippum sem samfélag. En látum ekki undan karlrembu og frekju. Höldum því til streitu,“ skrifar Rósa.
Þingflokksformenn stjórnarflokkanna hafa borið við að frávísunartillaga Jóns Gunnarssonar og stuðningur þingmanna meirihlutans, utan Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis við hana hafi ekki verið stuðningsyfirlýsing við nefndarformennsku Bergþórs Ólasonar, heldur hafi verið óvissa um hvort tillaga minnihlutans væri tæk til meðferðar. Í fyrri frétt Stundarinnar kemur hins vegar fram að þingkonurnar sem lögðu fram tillöguna um að setja Bergþór af óskuðu eftir fundarhléi svo unnt væri að kanna hvort tillagan væri tæk. Var þá ætlunin að gera breytingar á tillögunni ef niðurstaðan væri sú að svo væri ekki. Á þetta var ekki fallist.
Athugasemdir