Fjórar konur stíga fram í Stundinni í dag og lýsa kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
Nýlegasta atvikið mun hafa átt sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu. Segir Carmen Jóhannsdóttir að Jón Baldvin hafi áreitt sig kynferðislega á heimili hans og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í bænum Salobreña í Andalúsíu.
Elsta atvikið sem er lýst átti sér stað árið 1967 þegar Jón Baldvin var kennari í Hagaskóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nemendur við skólann, Matthildur Kristmannsdóttir og María Alexandersdóttir, voru á bilinu 13 og 14 ára.
Guðrún Harðardóttir, sem áður steig fram í viðtali 2012, lýsir tilraunum Jóns Baldvins til að kyssa sig á Ítalíu þegar hún var táningur og næturheimsóknum hans í herbergi hennar. Fleiri konur lýsa sams konar heimsóknum, að Jón Baldvin hafi birst við rúm þeirra að nóttu til. Ein slíkra heimsókna mun hafa átt sér stað í febrúar 1975, þegar hann fagnaði jómfrúarræðu sinni á Alþingi.
Hátt á annan tug kvenna hefur gengið í lokaðan MeToo hóp á Facebook þar sem fleiri sögum hefur verið deilt. Sumar kvennanna segjast ekki tilbúnar til þess að deila sögum sínum opinberlega eða undir nafni. Í samtali við Stundina hafnar Jón Baldvin ásökununum og segir þær fjarstæðukenndar.
Umfjöllunina í heild má lesa í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í morgun.
Athugasemdir