Zakarías Herman Gunnarsson, tónlistarmaður úr hljómsveitunum Babies-flokknum og Caterpillarmen, hefur verið kærður fyrir alvarlega líkamsárás. Þetta herma heimildir Stundarinnar.
Babies-flokkurinn tilkynnti um brotthvarf Zakaríasar úr hljómsveitinni „af persónulegum ástæðum“ 19. desember síðastliðinn. „Hans verður sárt saknað en brotthvarf hans mun annars ekki hafa nein áhrif á starf hljómsveitarinnar um ókomna tíð,“ sagði í tilkynningu frá hljómsveitinni á Facebook.
Líkamsárásin mun hafa átt sér stað í byrjun desember og Zakarías gist fangageymslur í kjölfar hennar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hegðun af þessum toga er borin upp á Zakarías. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var honum meinað að taka þátt með Babies-flokknum í Girl Power-tónleikum á Húrra í maí, sem söngkonan Salka Sól Eyfeld stóð meðal annars fyrir. Höfðu sögusagnir um fyrri hegðun Zakaríasar borist til eyrna stjórnenda viðburðarins.
Babies-flokkurinn hefur notið mikilla vinsælda sem ballhljómsveit undanfarin ár. Sveitin spilar helst tökulög á tónleikum og hefur komið fram á mánaðarlegum viðburðum á skemmtistaðnum Húrra undanfarin ár, auk þess að halda tónleika í Gamla bíói á tyllidögum. Fyrstu tónleikar sveitarinnar án Zakaríasar voru sunnudagskvöldið 30. desember í Gamla bíói. Þá spilaði hljómsveitin á þrettándaballi á Bryggjunni Brugghúsi 5. janúar síðastliðinn.
Zakarías er einnig í proggtónlistarsveitinni Caterpillarmen. Ekki hefur komið fram frá hljómsveitinni hvort hann starfi enn innan hennar vébanda.
Ekki náðist í Zakarías við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Athugasemdir